Hemingway barinn á Hótel Ritz er best geymda leyndarmál Parísar.
Hingað hef ég dregið alla þá sem ég elska mest þá og þá stundina og þeir elska mig undantekningarlaust alltaf miklu meira fyrir vikið.
Þegar samnefndur rithöfundur var og hét var þetta uppáhaldsstaðurinn hans. Það eru nokkur ár síðan barinn var endurnýjaður og færður í það horf sem Hemingway fílaði svo vel.
Þetta er karlmannlegur bar þar sem panell þekur veggina og streklegir leðursófar bjóða gestina velkomna til sætis. Á veggjunum hanga 25 ljósmyndir sem Hemingway tók af þeim stöðum sem gáfu honum hvað mesta andargift til skrifta. Á gólfunum er þykkt teppi sem dempar öll hljóð og er ferlega næs. Hér einu sinni mátti reykja á barnum og þá var hér partílykt sem ég elska, núna er því miður búið að banna reykingar en mikið myndi ég fíla þann einstakling sem drægi upp vindilinn á la Hemingway og kveikti sér í einum.
Á barnum er borið fram gott maltviskí sem Hemingway hafði miklar mætur á. Þar er þó einnig að finna góðan bjór og æðislega kokteila. Það er heimsmeistari barþjóna árið 2001 Colin Field sem stendur jafnan vaktina á barnum.
Hemingway barinn er líka eini barinn í París þar sem konur geta komið einar og drukkið sinn drykk og notið friðhelgi. Ósanngjarnt en satt þá er menningin hér sú að sitji kona ein á bar er hún álitin vera til í hvað sem er.
Forbes tímaritið valdi Hemingwaybarinn þann besta í heimi og ég er því hjartanlega sammála.
Það skemmir ekkert sérstaklega fyrir að barinn er kyrfilega falinn í öðrum enda Ritz hótelsins. Leiðin þangað liggur í gegnum 400 metra langan ógleymanlegan kristalgang sem liggur undir hótelinu. Til beggja hliða eru himinháir glerveggir sem geyma demanta, gull, perlur og allavega lita kristala, töskur, skart og fatnað frá öllum helstu tískufyrirtækjum heims.
Öll fegurð veraldar á einum stað, já alveg satt.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.