Nú um helgina er hin frábæra tónlistarhátíð Sónar Reykjavík haldin í annað sinn.
Hátíð sem er eins og himnasending fyrir allar teknótæfur og tarfa og fólk sem kann að meta góða tónlist og langar að uppgötva nýja tónlistarmenn.
Ég skellti mér í dansskóna á síðustu Sónar Reykjavík og dansaði, hló og grét með tónlistinni í þrjá daga, það bjargaði mér úr skammdegisþunglyndinu og í leiðinni brenndi ég jólaspikinu á skemmtilegan hátt.
Í ár hef ég hugsað mér að gera það sama og er byrjuð að hita upp af alvöru, grandskoða dagskrána og hlusta á tónlistarmennina sem ég þekki ekki á Spotify en svo verða óhjákvæmilega einhverjir sem munu koma mér á óvart og „splúndra í mér heilanum“ (blow my mind) – Eins og í fyrra þegar ég bara trúði því ekki hvað James Blake væri guðdómlegur live og hvað Thugfuckers væru brjálæðislega kúl og Squarepusher enn „meðetta“.
Í ár er ég spenntust fyrir Jon Hopkins, Paul Kalkbrenner og svo Gusgus og Trentemöller sem eru alltaf í uppáhaldi hjámér og spilaði líka í fyrra. Aðrir áhugaverðir erlendir eru Major Lazer, Evian Christ. Kölsch, When Saints go machine, Kenton Slash Demon, Bonobo, Diplo, Ryuichi Sakamoto & Taylor Deupree, Low Roar ofl.
Svo eru auðvitað rjóminn af íslenskum tónlistarmönnum líka að fara spila fyrir utan Gusgus eru Hjaltalín, FM belfast, Sometime, Sísý Ey, Glúteus Maximus (Dj Margeir og Stebbi Stef úr Gusgus) HE (Högni í Hjaltalín) , Oj Barasta, Kiasmos (dúóið Janus úr Bloodgroup og Ólafur Arnalds).
Ég mæli innilega með þessarri hátíð fyrir dansglatt fólk á öllum aldri! Mæli sérstaklega með því að fólk mæti í þægilegum skóm og fatnaði til að dansa í, það er eiginlega hálfkjánalegt að sjá stúlkur spígspora um á platform hælum sem eru alveg að drepa á þeim greyið fæturna við þessar himnesku aðstæður!
Þú færð miða og lest meira HÉR.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.