Hönnuður mánaðarins á Reykjavik Natura hótelinu er vörumerkið HULD DESIGN og nú í október verður sérstök kynning á vörum hönnuðarins í hönnunarbúð hótelsins.
HULD DESIGN heitir eftir hönnuðinum og stofnandanum Huldu Kristinsdóttur, sem fyrir rúmum tuttugu árum hóf að hanna og framleiða töskur og fylgihluti úr íslensku fiskroði og leðri.
Vörumerkið sækir innblástur í náttúru Íslands, hraunið, mosann og ekki síst hafið, þar sem rætur hönnuðarins liggja.
Handtöskurnar eru af öllum stærðum og gerðum, koma í ótal litum og eru flestar úr laxa- hlýra, eða karfaroði. Í þeim og á eru handhæg hólf til þess að geyma allt sem nútímakonan þarf að geyma og flytja á milli staða. Sjá nánar á www.huld.is
Margir muna eflaust enn eftir hinum vinsælu og glæsilegu tískusýningum á Hótel Loftleiðum, nú Icelandair hótel Reykjavík Natura, hér á árum áður.
Þar sýndu módelsamtökin helstu nýjungar í íslenskum ullar- og skinnvörum og gestir hótelsins gátu á meðan gætt sér á gómsætum réttum bornum fram á Víkingaskipi.
Að sögn Ragnheiðar Friðriksdóttur hjá Reykjavík Concierge, sem heldur utan um tískusýningarnar í samstarfi við Reykjavík Natura, finnst hótelgestum mjög gaman og áhugavert að hitta íslenska hönnuði og sjá hvað þeir eru að gera.
„Einnig er þessi viðburður alltaf að laða til sín fleiri og fleiri íslenska konuhópa, sem njóta þess að koma hingað og fá sér hvítvínsglas í góðra vina hópi, skoða fallega íslenska hönnun og fá jafnvel tækifæri til þess að kaupa hana á afslætti.“
Á föstudögum frá kl. 17 – 19 verða hönnuðirnir með sérstaka kynningu á vörum sínum á hótelinu, þar sem gestum gefst kostur á að hitta þá.
Tilvalin hugmynd fyrir handverkskonur eða áhugafólk um hönnun að kíkja á töskurnar hennar Huldar í dag og setjast svo niður í skemmtilegt spjall.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.