Gónhóll á Eyrarbakka er staður sem ég reyni að heimsækja þegar ég fer austur yfir fjall en Gónhól reka mæðgurnar Nína Knútsdóttir og Anna og Arna Árnadætur.
Þær vinna að endurbótum á húsinu sem áður var frystihús og hefur sú hugmynd þróast að endurbyggja dansk-íslenskan bæ eins og hann gæti hafa litið út á tímabilinu 1880-1940. Þarna verður yfirbyggt þorp með opnum markaðstorgum og sölubásum, ýmist inni í húsum eða á steinlögðum strætum.
Nú þegar hafa tvö hús risið tvö hús í þorpinu, smíðuð í samstarfi við fangana á Litla-Hrauni. Einnig hefur verið smíðaður útsýnispallur í sumar þar sem beint útsýni á Suðurpólinn en hann er í rúmlega 17.000 km fjarlægð beint í hásuður frá Eyrarbakka og ber hvergi land á milli. Þá eru byrjaðar að detta inn stjörnuskoðunarferðir fyrir veturinn og hægt verður að koma í svefnpokaferðir á stjörnupallinn og fá að liggja úti í kyrrðinni með norðurljósum og blikkandi stjörnum.
Gónhóll býður upp á gistingu og er með listagallerí en kaffihúsið ilmar af nýbökuðum vöfflum og krambúðin er alltaf með eitthvað skemmtilegt og skondið. Eldra fólkið og heimamenn eru með sölubása með ódýrt og skemmtilegt dót og þar sitja heimakonur og sötra kaffi, prjóna af miklum móð og spjalla við karlmenn sem selja heimasmíðuð leikföng eða gersemar úr geymslum á næstu sölubásum.
Gónhóll er alltaf með skemmtilegar uppákomur og á morgun, sunnudag verður haldið uppboð kl 14:00. Boðin verða upp gömul húsgögn og annað eigulegt dót sem Eyrbekkingar og sveitungar koma með úr dánarbúum, húsum og geymslum.
Þar má finna fallegan antík fataskáp (lágmarksboð er 5.000.- ) billjardborð, rúmgafla og náttborð, hillur, borðstofusett, bíladekk (á 1.000.-stk), flottan antík trékistill og margt fleira. Það er opið í Gónhól bæði laugardaga og sunnudaga frá 13-17
Og þess má geta að Aldamótahátíð verður haldið á Eyrarbakka 13-14 ágúst en þá munu íbúar og gestir klæða sig uppá í anda aldamótanna 1900, hestar, kindur, geitur, hænur, menn konur og börn munu bjóða alla velkomna á þorpshátíðinni, opna dyr og bjóða gestum að kíkja inn í kaffi og pönnukökur.
Markaðsstemmning og lifandi tónlist (harmonikkur) munu duna og það má sjá söluborð og markaðstorg um allar götur, tún og engi. Listsýningar, hlöðuball, skúðganga og fleira -þá er bara að merkja dagsetninguna í dagatalið 13-14 ágúst og skella sér í gleðina á Eyrarbakka.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.