Það er alltaf gaman að taka ísrúnt til Eyrarbakka, skella sér í göngutúr í fjörunnni og finna ilminn af sjávarsalti og sjá jafnvel eins og einn sel á sundi.
Það er líka skemmtilegt að ganga um í bænum og skoða sjarmerandi húsin sem vel er passað upp á, fá sér humarsúpu eða humar í Rauðahúsinu og skoða söfnin sem er að finna þar. Rauða Húsið er í hópi elstu bygginga landsins. Var byggt árið 1765 og var í upphafi og fram til ársins 1926 heimili kaupmanna og annars starfsfólks Eyrarbakkaverslunar en frá 1995 hefur húsið verið opið almenningi til sýnis. Einnig er gaman að kíkja í Gónhól eða skoða handverk hennar Regínu í gallerí Regínu.
Á morgun hefst Aldamótahátíð á Eyrarbakka en þá munu íbúar og gestir klæða sig uppá í anda aldamótanna 1900 og hestar, kindur, geitur, hænur, menn konur og börn bjóða alla velkomna á þorpshátíð, opna dyr og bjóða gestum að kíkja inn í kaffi og pönnukökur.
Markaðsstemmning og lifandi tónlist (harmonikkur) mun duna og það má sjá söluborð um allar götur, tún og engi. Listsýningar, hlöðuball, skúðganga og fleira skemmtilegt. -þá er bara að skella sér á Eyrarbakka.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.