Veftímaritið iGNANT birti nýverið umfangsmikla umfjöllun og myndband sem var sérstaklega framleitt fyrir Heklu Flókadóttur ljósmyndara og verkefnið hennar HEIMA.
Verkefni Heklu er ljósmyndasería þar sem hún myndar ólíka einstaklinga á öllum aldri, nakta í stórbrotinni íslenskri náttúru að vetrarlagi.
Veftímaritið hafði veður af verkefni Heklu og sendi teymi til að fylgja henni eftir. Umfjöllunina má sjá
á www.ignant.de, en þar má sjá myndband og ljósmyndir sem gefa innsýn í verkefnið.
Hekla Flókadóttir er fædd 1988 og er búsett í Reykjavík. Hún lærði ljósmyndun í London og útskrifaðist með B.A. gráðu frá London College of Communication árið 2013.
iGNANT er virt og verðlaunað veftímarit, sem fjallar um það besta í listum, hönnun, ljósmyndun og arkitektúr. iGNANT er vinsælt veftímarit hjá fagfólki í skapandi greinum og fær meira en hálfa milljón heimsókna í hverjum mánuði.
Smelltu til að stækka myndir og skoða:
Um seríuna
Í ljósmyndaseríunni sem fjallað var um tekst Hekla á við tengsl manneskjunnar við harðneskjulega íslenska náttúru. Hún sótti innblástur sinn m.a. í Íslendingasögurnar og íslenskar þjóðsögur þar sem glögglega sést hvað Íslendingar hafa þurft að treysta mikið á og berjast við náttúruöflin. Hekla reynir að fá áhorfandann til þess að upplifa umhverfið í gegnum manneskjuna sem mótív í stað þess að beina athyglina að nektinni.
Hekla fékk ættingja og vini ítrekað til að fækka fötum við afar kuldalegar aðstæður, m.a. í frosti, hagléli og skafrenningi til að láta myndaseríuna verða að veruleika. Meðal fyrirsæta eru móðir
Heklu, systir, ófrísk vinkona, frændur og gamlir skólafélagar.
“Ég er afar lánsöm að fjölskylda mín og vinir eru engar teprur, það gekk vonum framar að fá módel í þetta verkefni.” segir Hekla sem er að vonum hress með árangurinn.
Work in Progress – Hekla Flokadottir from iGNANT on Vimeo.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.