La Société er nýr veitingastaður í París og ef þú átt leið um stórborgina ættirðu endilega að kíkja við. Þetta er flottur veitingastaður sem liggur í hjarta Latínuhverfisins, akkúrat við hliðina á sögufrægu kaffihúsunum Les Deux Magots og Café de Flore.
Andrúmsloftið þarna inni er mjög skemmtilegt; veitingastaður og jazzaður bar í breskum eða frönskum anda – ekta svona, “Je ne sais quoi”.
Sem stendur er þetta málið, allir vilja borða þarna eða kíkja í drykk. Við vinkonurnar vorum á vappinu í Latínuhverfinu og komumst ekki hjá því að sjá örtröðina sem myndaðist þarna að kvöldlagi. Mjög sætur framkvæmdastjóri staðarins var líka svo elskulegur að vippa okkur fram fyrir í röðinni en það er víst betra að panta borð með svolitlum fyrirvara.
La Société tekur um 130 gesti í sæti og er til húsa í reisulegu og gömlu húsi. Góðir grannar eru þeir Luis Vuitton, Dior og Armani – svo sem ekki dónalegur félagsskapur.
Hönnun staðarins er flott; á veggjunum eru fallegar lágmyndir, hátt er til lofts og fyrir risastórum gluggunum hanga massív gluggatjöld. Það er hlýlegt parket á góflinu og húsgögnin eru úr mahóni og leðri. Engu til sparað þarna í glæsileikanum enda er það franski innanhúshönnuðurinn Christian Liaigre sem á heiðurinn. Þetta er sami maðurinn og hannaði Selfridges í London og Mercer Hótelið í New York.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.