Tekkið, koparinn, brúni, guli og blái liturinn. Eames, Jacobsen, Aalto og allir hinir hönnuðurnir sem voru ó svo framúrstefnulegir fyrir 60-70 árum. Endurkoma þeirra er í algjöru hámarki um þessar mundir.
Ég hef persónulega verið gríðarlegur aðdáandi þessa stíls er kenndur er við mid century modern frá því ég man eftir mér.
Ég hugsa að það tengist nostalgíunni við heimili ömmu og afa en þar var allt mjög í þessum anda. Svo átti ég líka frænku (ömmusystur) í Ameríku sem var sérlega glamúrús og af myndum sem teknar voru heima hjá henni að dæma naut mid-century stíllinn sín í botn hjá þeirri skvísu.
Árið 2000 var allt í tekki heima hjá mér en þá bjó ég í skeljasandshúsi í Norðurmýri þar sem stíllinn átti sérlega vel við.
Í þá daga keypti ég eitt stykki hillueiningu í Hansa-hillusamstæðuna á 200 kr í Góða Hirðinum. Restin af tekk innréttingum heimilisins kom síðan svona héðan og þaðan.
Einu sinni fann ég meira að segja þetta líka gullfallega tekkborð við ruslatunnur á bak við hús. Fólki þótti þessi fíni viður því miður ekki merkilegri en svo á þessum tíma.
Árið 2005, þegar ég seldi í Norðurmýri og flutti í timburhús á Seltjarnarnesi, skipti ég um stíl þar sem annarskonar hönnunarstíll nýtur sín betur í gömlu timburhúsi sem var byggt áður en Eames hjónin fæddust. En það er önnur saga.
Tenging við náttúruna, birta og opin rými
Það sem einkennir mid-century modern stílinn í innanhússhönnun er einfaldleiki og tenging við náttúruna. Pottaplöntur voru mikið notaðar til að fegra heimili, sem og náttúruleg efni. Gegnheill viður, kopar, marmari og fleira sem tengist náttúrunni. Innigosbrunnar voru t.a.m mjög eftirsóttir og ég spái þeim endurkomu á næstu misserum. Gott feng-shui í því.
Steinveggir og eða panel veggir voru einnig vinsælir sem og opin rými þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja. Höfuðborg þessa stíls þegar kemur að arkitektúr er án efa Palm Springs í Bandaríkjunum en þangað verða allir aðdáendur stílsins að fara í pílagrímsferð.
Hér eru nokkrar myndir sem ég tók saman af Pintrest en þær eru bæði úr orginal og nýjum íbúðum. Það er að segja, sumar eru teknar nýlega og aðrar upp úr 1950.
Þú sérð hvaða litir og form einkenna stílinn á öllum myndunum en síðasta íbúðin finnst mér alveg brjálæðingslega falleg. Garðurinn og tréð er svo gott sem INNI í stofunni, húsgögnin geggjuð og einfaldleikinn og hlýleikinn í senn, alveg to die for! Þarna vildi ég vera.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.