Margar gerðir af hálftómum pastapokum, botnfylli af hrísgrjónum í þremur kössum, gamlar niðursuðudósir sem þú manst ekki lengur hvenær voru keyptar – er þetta ástandið í eldhússkápnum hjá þér?
Ef svo er gæti verið komin tími á tiltekt sem tekur ekki meira en eina klukkustund.
Fyrsta skrefið er að tæma allt úr skápnum og stilla upp á borði svo að hægt sé að fá yfirsýn og eiga gott með að flokka hlutina til að koma þeim aftur skipulega fyrir í skápnum.
Reglan sem þú ferð eftir er þessi:
1. Hlutir sem þú notar daglega fara á einn stað.
2. Hlutir sem þú notar vikulega eða sjaldnar fara á annan stað.
3. Óopnaðar matvörur sem þú ætlar ekki að eiga fara í einn poka.
4. Vörur sem þarf að henda fara í ruslið.
Þar sem skápurinn er tómur skaltu nýta tækifærið og hreinsa hann vandlega. Ryksuga og þurrka úr hillunum. Láttu þorna áður en þú raðar aftur inn og vertu viss um að hafa nóg af ílátum undir þurrmat og annað sem þarf þess með.
Raðaðu nú vandlega í hillurnar að nýju:
Taktu eina hillu undir bökunarvörur (hveiti, lyftiduft, sykur os.frv.) og láttu morgunmatinn í þá næstu. Ef þú átt börn er gott að útbúa litla snakkhillu þar sem þau geta náð sér í nasl sem þau mega narta í með góðri samvisku foreldranna. Láttu þunga hluti eins og t.d. flöskur með ólífuolíu, á neðstu hilluna og það sem þú nærð í daglega ætti að vera í augnhæð.
Með því að taka til og skipuleggja skápinn sparast heilmikill tími sem annars færi í grams. Að auki kemur þú í veg fyrir að kaupa tvisvar sinnum sömu vöruna og sitja þá uppi með of mikið af því sama.
Gangi þér vel!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.