Einhversstaðar sá ég plakat þar sem á stóð: “More stuff more problems”
Ég tengi alveg við þetta þar sem mér finnst of mikið af óþarfa hlutum bara skapa vandamál, mynda plássleysi og auka á tímann sem fer í frágang.
Fyrir nokkru síðan bætti vinkona mín mér í Facebook hóp sem kallar sig Áhugafólk um minimalískan lífstíl. Þetta þótti mér ægilega spenndandi þar sem ég hef verið dugleg við að hreinsa útúr skápum hjá mér síðastliðið ár.
Fólkið í hópnum er komið mis-langt í lífsstílnum en hver getur tileinkað sér hvaða part af þessum lífsstíl sem er.
Ég persónulega nýt þess að eiga bíl og örfáa skrautmuni sem gleðja mig en reyni samt sem áður að vera grimm í að losa mig við það sem ég hef ekki notað lengi.
Maðurinn minn er mikill minimalisti og finnst ég eiga alltof mikið af dóti, sem er alveg satt, en það sem hefur tilfinningalegt gildi fær þó að halda sínum stað 😉
Vera nægjusöm og nota það sem maður þarf
Það sem minimalískur lífstíll snýst um er að eiga ekki umfram af dóti, vera nægjusamur og nota í raun bara það sem maður þarf.
Hver þarf að eiga 20 handklæði eða 12 viskustykki? 5 tegundir af body lotion eða 5 plastskálar sem aldrei eru notaðar?
Ekki ég a.m.k. Með því að losa sig við umfram magn af dóti sem er notað þá skapast meira rými inná heimilinu og þegar það er tiltekt þá er minna af dóti til að ganga frá og auðveldara að þrífa. Þetta hljómar ekki illa!
Ferlið til að tileinka sér þennan lífstíl kallast á ensku “declutter” en einhver stakk uppá orðinu “grisja” fyrir okkur Íslendinga og mér þykir það passa mjög vel við. Hér eru nokkur góð ráð til að koma þér af stað í grisjun:
Flokkun
Taktu 2 kassa; einn fyrir hluti sem þú ætlar að gefa og annan sem þú ætlar að henda.
Í GEFA kassann seturðu hluti sem eru heilir og í lagi með, eitthvað sem getur nýst öðrum. Eitthvað sem þú ert ekki lengur að nota. Í HENDA kassann læturu hluti sem eru illa farnir og hafa e.t.v. misst notagildið sitt. Þú ert með minna af dóti og friðar sálina með því að gefa í góðgerðasamtök. Einfalt 🙂
Það verður að vera gleði
Losaðu þig við allt sem vekur ekki upp gleðitilfinningu þegar þú sérð eða notar hlutinn.
Nema náttúrulega þetta hafi mjög mikið notagildi og þú notir það mjög reglulega.
Ég á ofboðslega mikið af auka postulínsdóti uppí skáp, hinar og þessar skálar, glös ofl. sem er aldrei notað. Þetta fer burt.
Eitthvað sem er búið að vera fyrir þér í einhvern tíma en þú hugsar alltaf “kannski gæti ég þurft að nota þetta einhvern tímann”. Svarið er NEI. Þú munt aldrei nota þetta svo losaðu þig við það!
Þarftu þrennt af því sama?
Áttu tíu stykki af alveg eins hvítum handklæðum en þið eruð bara þrjú í fjölskyldunni? Þú getur alveg látið fjögur hverfa. Ef þú átt einhverja tvo hluti sem þjóna sama tilgangi en líta kannski öðruvísi út, veldu þann sem er betri og fallegri, hinn má hverfa. Með rúmföt, þú þarft bara tvö sett fyrir hvert rúm.
Gefðu þessu ár
Ef þú hefur ekki notað hlutinn eða flíkina í eitt ár eða lengur þá ertu ekki að fara nota hann. Burt með þetta! Kjóllinn sem er búinn að vera inní fataskáp síðan 2013 sem þú hefur ekki enn notað, ég hugsa að sá dagur komi ekki, hann mun njóta sín betur í Rauða Krossinum 😉
Matreiðslubækurnar, allar skáldsögurnar sem þú ætlar einhvern tímann að lesa og safna ryki í bóka skápnum. Æjj er ekki bara betra að gefa þetta einhverjum sem mun í alvörunni nota þetta? Til dæmis bókasafninu? Þetta gildir um alla hluti á heimilinu, snyrtivörur, tímarit, eldhúsáhöld, föt og allt annað sem þér dettur í hug.
Tóm pláss
Hafðu eldhúsborðið, náttborðið, sófaborðið og sjónvarpskenkinn með eins litlu dóti á og mögulegt er. Örfáir skrautmunir sem gleðja augað geta gert mikið en troðfullt borð af skrauti, vösum, kertum og þessháttar er algjör óþarfi. Þetta er bara fyrir okkur þegar við erum að taka til og þurrka af eða vinna. Svo geta ef til vill heilu svæðin orðið tóm.
Byrjaðu hægt, en ekki of hægt
Gerðu lista, ákveddu eitt svæði á heimilinu sem þú ætlar að byrja á, haltu svo áfram, eitt svæði í einu. Gefðu þér samt tímaramma en það er talað um að þetta eigi ekki að taka lengri tíma en þrjá mánuði því annars gæti þetta grisjunar ferli dregist og ekkert verður úr því.
Kaupæði
Ekki kaupa fleiri veraldlega hluti nema þú hreinlega virkilega þurfir þess. Það þjónar engum til gangi að kaupa sér enn einn vasann eða kertastjakann. Hér eru líka fleiri góð ráð. Og hér.
Með því að fylgja þessum ráðum og tileinka sér þennan lífstíl þá mun streita eflaust minnka hjá þér í kjölfarið. Þegar þú byrjar að grisja heima hjá þér þá er virkilega gott að hafa einhvern utan aðkomandi með sér og spyrja alltaf sjálfan sig “þarf ég virkilega á þessu að halda?”.
Hægt er að fara með lífstílinn lengra, tileinka sér minimalíska hegðun og venjur, ég læt það hins vegar kyrrt liggja.
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður