Mörg höfum við tilhneigingu til að safna að okkur of miklu óþarfa dóti sem aldrei er notað og gerir fátt annað en að safnast fyrir eða taka gott pláss sem annars væri hægt að nota undir það sem við notum, eða einfaldlega ekki neitt.
Hér eru nokkur dæmi um hvað er sniðugt að gefa, hverju á að henda og hvað mætti geyma:
GEFA
Gömul leikföng: Það eru alltaf einhversstaðar litlar hendur sem bíða þess að ættleiða bangsa eða dúkku sem hefur lokið hlutverki sínu hjá stálpuðu barni. Athugaðu bara að hafa leikföngin hrein og í góðu ástandi þegar þú gefur þau.
Raftæki og tölvur: Ekki vera með stafla af gömlum tölvum, snúrum, hleðslu og raftækjum sem aldrei eru notuð heima hjá þér. Sjáðu til þess að hlutirnir séu í lagi og gefðu svo til endurnotkunar.
Fatnaður: Gefðu allan fatnað sem þú hefur ekki klæðst undanfarna 18 mánuði.
Bækur sem þú ert búin að lesa: Þá sérstaklega kiljur. Gefðu líka tímarit eða uppflettibækur sem innihalda of gamlar upplýsingar eða annað sem hægt er að nálgast á netinu. Íhugaðu að gefa listaverkabækur eða samskonar bækur í góðu ástandi á næsta bókasafn.
Lítið notuð eldhústæki: Það er alltaf einhver sem getur notað þau meira en þú gerir. Ávaxtaþurrktækið sem þú keyptir í Sjónvarpsmarkaðnum safnar bara ryki og tekur frá þér pláss.
Gleraugu: Árlega hendir fólk miklu magni af gleraugum sem gætu komið í virkilega góð not annarsstaðar.
Eldhúsáhöld: Margir eiga þrjá ostaskera, fimm sleifar, fjóra steikarspaða og svo framvegis. Samt þurfum við flest bara eitt stykki af hvoru. Sorteraðu í skúffunni.
HENDA
01/12/97: Hentu öllu sem er komið yfir dagsetningu. Þetta á við um alla matvöru, lyf og snyrtivörur. Snyrtivörur hafa einkar stuttan líftíma, flest dugar aðeins vel í 12 mánuði og annað í 3-6 mánuði. Matvara ætti ekki að vera lengur í frysti en í 3-6 mánuði í mesta lagi. Ef þú ert ekki viss hvað varan hefur verið lengi í frystinum skaltu henda því í ruslið.
Málningu og sambærilegri vöru sem hefur ekki verið notuð í ár eða meira: Slíkar vörur eru einkar eldfimar og því hættulegt að láta dósirnar standa lengi eftir að þær hafa verið opnaðar.
Jóla og afmæliskort: Þú þarft þetta í raun ekki en það er ágætt að skrifa niður hverjir sendu þér kort og senda svo aftur að ári liðnu.
GEYMA
Geymdu fallegan klassískan fatnað úr vönduðum og góðum efnum. Hvít skyrta, flottar og klæðilegar gallabuxur, góð úlpa eða kasmír ullarkápa í flottu sniði. Þetta er tilvalið að eiga og halda uppá.
Ljósmyndir: Geymdu ljósmyndir í góðum kassa á dimmum stað. Láttu reglulega prenta út stafrænar myndir. Annars er hætt við að þær gleymist á harða disknum.
Sorpa, Rauði Krossinn og Hjálpræðisherinn eru meðal þeirra sem taka við nytjavörum. Gámar Rauða Krossins eru á endurvinnslusvæðum Sorpu en Hertex, nytjamarkaður Hjálpræðishersins er meðal annars á Akureyri, Reyðarfirði og í Reykjavík.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.