Af einhverjum ástæðum höldum við að flest allt grænmeti og ávextir verði að geyma í ísskápnum.
Þetta er mikill misskilningur. Sumt skemmist einfaldlega í kuldanum eða verður verra. Eftirtalin matvæli ætti aldrei að geyma í ísskáp. Leggðu listann á minnið.
1. Kartöflur
Ef þú geymir kartöflur í ísskáp þá breytist sterkjan í þeim í sykur. Þetta gæti hljómað vel fyrir einhverja en í raun breytist bragðið til hins verra. Hýðið dökknar jafnframt of hratt við suðu og þá verða þær síður girnilegar.
2. Laukur
Lauk má ekki geyma í ísskáp en það ætti heldur ekki að hafa hann nálægt kartöflum. Gas frá kartöflunum fær laukinn til að skemmast og rotna mikið fyrr. Það er best að geyma laukinn alltaf í umbúðunum sem þú kaupir hann í, í lokuðum skáp og í burtu frá kartöflunum.
3. Hvítlaukur
Hvítlaukur þarf að anda en rifin geymast í tvo mánuði án þess að vera sett í ísskáp. Margir halda því fram að rakinn í ísskápnum fái hvítlaukinn til að spíra fyrr. Hafðu hann þar sem er nægt súrefni og enginn raki.
4. Avocado
Það er fátt ljúffengara en lárpera sem er rétt þroskuð. Hún þroskast hinsvegar ekki rétt í ísskápnum hjá þér svo ef þú vilt fá avocado þroskað skaltu hafa það í stofuhita en geymdu það í ísskápnum eftir að það er fullþroskað og hafðu steininn með. Hann kemur í veg fyrir að það dökkni. Einnig er gott að kreista smá sítrónu yfir til að koma í veg fyrir oxun.
5. Tómatar
Tómata á að geyma í stofuhita og ekki í beinu sólarljósi því þá geta þeir orðið linir of hratt eða þroskast ójafnt.
6. Bananar
“I’m Chiquita banana and I’ve come to say, bananas have to ripen in a certain way.”
Þetta var slagorðið frá Chiquita upp úr 1940 og enn stendur það. Bananar eiga að þroskast í stofuhita en ef þú vilt hægja á þroskanum má setja þá í ísskápinn. Athugaðu að hýðið verður dökkt í ísskápnum en innihaldið heldur sér. Einnig er sniðugt að frysta banana án hýðis og setja í blandarann með möndlumjólk ef þig langar að búa til staðgengil fyrir rjómaís.
7. Melónur
Ferskar melónur sem hafa ekki verið skornar geymast best í stofuhita þar sem þær geta þroskast og orðið sætar. Það má aðeins setja þær í ísskáp eftir að búið er að skera þær.
8. Aðrir ávextir
Apríkósur, plómur, nektarínur, kirsuber og svo framvegis. Þetta ætti allt að fá að þroskast í stofuhita með stilkinn niður. Það er bara þegar ávöxturinn er byrjaður að mýkjast upp og lykta sætur sem þú mátt setja hann í skúffuna í ísskápnum. Þar endist hann í þrjá til fimm daga.
9. Brauð
Brauð ætti alltaf að borða samdægurs svo vendu þig á að kaupa minni skammta ef þú ert ekki með marga í heimili. Ef þú ætlar að setja það í brauðrist þá er betra að setja brauðið beint í frysti þegar það er nýtt.
10. Krydd
Rakinn í ísskápnum skemmir bragðið í kryddinu svo geymdu allt krydd og kryddjurtir í stofuhita á dimmum stað. Þau geymast árum saman.
11. Hunang
Það er mikill misskilningur að hunang eigi að geyma í ísskápnum. Hunang er meðal elstu geymsluaðferða heims enda endist það svo gott sem að eilífu. Meira að segja hafa heyrst sögur af því að í Egyptalandi hafi fundist hunang sem enn mátti borða, árhundruðum eftir að því var komið fyrir í grafhýsum. Ef þú setur hunang í kæli þá kristallast það og verður hart og leiðinlegt.
12. Hnetusmjör
Náttúrulegt og lífrænt hnetusmjör verður að setja í ísskáp þar sem jarðhnetuolían getur skilið sig frá hnetumassanum og skemmst. En fjöldaframleitt hnetusmjör eins og JIF og Pétur Pan getur verið mánuðum saman í skúffunni. Meira að segja eftir að búið er að opna krukkuna. En að geyma hnetusmjör í marga mánuði – hver gerir það?
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.