Það er ekki alltaf jafn auðvelt að vera til og einfaldir hlutir geta stundum flækst fyrir flóknum konum.
Þetta er svo margt – Við þurfum að halda okkur sjálfum sætum, börnin okkar þurfa að vera hamingjusöm, vel til fara og með heimavinnuna á tæru. Heimilið þarf að vera hreint og fínt og svo eru það allir hinir hnapparnir sem þarf að hneppa. Öll daglegu verkin og allt hitt sem kemur óvænt upp. Stundum getur þetta orðið voða mikið stress.
Ég rambaði fyrst á Flylady.net fyrir mörgum árum. Frænka mín, sem var að kafna úr drasli heima hjá sér, benti mér á þennan vef og sagði hann bara hreinustu snilld. Þetta var lausnin! Við frænkurnar skráðum okkur í kjölfarið á email-námskeið hjá flugudömunni og ég held það sé óhætt að fullyrða að útskrifuðumst sem prýðisgóðar húsmæður eftir að hafa fylgt leiðbeiningum Flugudömunnar.
Ég fór svo skrefinu lengra og tileinkaði mér að eiga sem minnst af dóti heima hjá mér. Óþarfa dót kallar alltaf bara á meiri óreiðu inni á heimlinu. Allir eldhússkápar voru hreinsaðir og ég fór margar, margar ferðir í Hjálpræðisherinn með dót. Jesúbörnin elskuðu mig á þessu tímabili. Mér leið vel. Eftir þessa byrjunartörn hefur þetta svo bara verið reglulegt á nokkura mánaða fresti. Konukot, Herinn og Rauði Krossinn njóta alltaf góðs af mínum minimalíska lífsstíl þegar ég kem með þetta auka dót sem sogast inn á heimilið en maður hefur ekkert að gera við.
En aftur að Flylady.net. Af sínum arfapúkalega vef aðstoðar hin búkonulega Marla Cilley, aka Flylady, kerlur með óreiðukolla við að koma skikki á umhverfi sitt. Marla þessi er í sjálfu sér búin að gera einhverskonar ofur amerískt sjálfshjálparprógramm sem miðar út frá heimilishaldi. Gott heimilishald er að hennar mati lykillinn að sæmilegri geðheilsu. Sjálfshjálparprógramm sem merkilegt nokk, reynist sumum ansi vel í glímunni við ADHD, þunglyndi, óreiðuvanda og önnur almenn leiðindi.
Hafðu hreint í kringum þig og eftir því dansar höfuðið
Já. FlyLady leggur mikla áherslu á að heimilið okkar sé algjörlega spikkað.
Hún vill meina að kollurinn á manni sé oft í takt við óreiðuna sem er á heimilinu; því minni óreiða, því skýrari verður kollurinn og þar með verður auðveldara að lifa lífinu og sinna öllum þeim skyldum sem því fylgja.
Sumum kann að þykja þetta of einfaldur boðskapur en þið ættuð bara að prófa. Það verður allt svo miklu auðveldara þegar heimilið er hreint og fínt og þegar rútínurnar eru meitlaðar í stein.
Til að einfalda boðskapinn enn meira gerir Flugudaman út frá ellefu boðorðum. Fyrsta boðorðið er að hafa vaskinn í eldhúsinu alltaf SKÍNANDI hreinan. Vaskurinn er einhverskonar kjarnastöð á heimilinu að mati flugudömunnar… Eftir höfðinu dansa limirnir, eftir vaskinum dansar heimilið… eða eitthvað í þá áttina.
11 boðorð flugudömunnar
- Haltu eldhúsvaskinum alltaf skínandi hreinum.
- Klæddu þig á hverjum morgni og reimaðu á þig skóna.
- Gerðu sömu morgun og kvöldrútínu á hverjum einasta degi.
- Ekki leyfa tölvunni að stela tímanum frá þér.
- Gakktu frá eftir þig. Ef þú tekur hlutinn upp, settu hann þá aftur á sinn stað.
- Ekki reyna að gera tvennt á sama tíma. EITT VERKEFNI Í EINU.
- Ekki taka meira út en þú getur gengið frá á einni klukkustund.
- Gerðu eitthvað fyrir sjálfa þig á hverjum degi, kannski bæði kvölds og morgna.
- Reyndu að vinna eins hratt og þú getur til að klára verkið. Þetta gefur þér bara meiri tíma til að leika þér síðar.
- Brostu, jafnvel þó þig langi ekki til þess. Bros eru smitandi. Ákveddu bara að vera hamingjusöm og þú verður það.
- Ekki gleyma að hlægja á hverjum degi. Dekraðu við þig. Þú átt það skilið.
Flugudaman vill við förum í skóna þarna í boðorði 2. Og það á meira segja að reima þá líka. Hún vill meina að ef við séum í skónum og allt, þá séum við meira til í slaginn og daginn. Fyrir þær sem eru almennt ekki í skóm inni hjá sér (eins og flestir á Íslandi), þá á bara að verða sér úti um inni-strigaskó til að nota heima. Hún er grjóthörð á þessu með reimuðu skóna. Eða eins og hún orðar það „Get dressed every morning, even if you don’t feel like it. Don’t forget your lace-up shoes.”
Það liggur í augum uppi að þetta prógramm er auðvitað allt svakalega amerískt. Að hluta til held ég að þessu sé beint að konum sem eru svona “stay at home moms” en samt getur hver sem er notast við þetta til að einfalda líf sitt. Hvort sem þú ert karl eða kona, í fæðingarorlofi eða útivinnandi eða hvað… Þessi trikk eru bara þrælfín í öllum sínum lummuleika.
Prófaðu bara! Smelltu hér á Flylady.net
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.