HEIMILIÐ DIY: Segulmáling úr Slippnum og Sticky 9 Instagram veggur, SNILLD

HEIMILIÐ DIY: Segulmáling úr Slippnum og Sticky 9 Instagram veggur, SNILLD

veggur_segulmalning_pjatt

Nú verð ég að deila með ykkur algjörlega frábæru fegrunarráði fyrir heimilið: Segulmálning úr Slippfélaginu + Sticky 9 Instagram segulmyndir.

Hver elskar ekki að skoða skemmtilegar myndir og minningar? Ekki endilega í tölvu, síma eða albúmi heldur hafa þær beint fyrir augunum alla daga. Og hver elskar ekki Instagram?

Segulmálningin frábæra!

Ein svona dós kostar um 4800 kr. Það er líka hægt að kaupa hálfa. Ég var fremur stórtæk.
Ein svona dós kostar um 4800 kr. Það er líka hægt að kaupa hálfa. Ég var fremur stórtæk.

Sumum finnst líka flott að skreyta ísskápinn sinn með myndum en sjálf er ég með frekar lítinn ísskáp sem stendur inni í svona eyju og því er ekkert sérstaklega gaman að hengja myndir eða segla á hann. Þær eru jú bara í augnhæð þeirra sem eru frá eins til fjögurra ára og þau hafa meiri áhuga á að fikta í myndunum en skoða þær.

Mér fannst því gersamlega brilliant að frétta að ég gæti keypt SEGULMÁLNINGU hjá Slippfélaginu og ekki nóg með það, maður getur málað yfir hana með hvaða lit eða málningu sem er og fest svo allskonar segulfínerí á vegginn.

Svona ferðu að því að mála

Ég brunaði niður í Slippfélag til að verða mér úti um dós, en Slippfélagið er að mér skilst eina verslunin sem selur svona málningu (og margt fleira sem er geggjað, kem kannski að því síðar).

Hér má sjá segulmálninguna á veggnum. Þú getur haft hana svona gráa eða málað yfir með öðrum lit.
Hér má sjá segulmálninguna á veggnum. Þú getur haft hana svona gráa eða málað yfir með öðrum lit.

Ég rauk svo heim með dósina, litla rúllu, teip og bakka og hófst handa. Aðferðin er svona:

  1. Undirbúðu flötinn sem þú ætlar að mála vel með teipi og dagblöðum. Strjúktu líka af veggnum með smá Ajaxblöndu.
  2. Hafðu kláran lítinn bakka og málningarrúllu.
  3. Hristu dósina eins og brjálæðingur. Hún er frekar þung svo ef það er vöðvatröll eða vöðvaskessa á svæðinu skaltu fá hann/hana í málið.
  4. Opnaðu dósina og hrærðu svakalega vel í henni. Þetta getur tekið smá tíma af því málmurinn í efninu er þykkur og blandast ekki auðveldlega við vatnið. Þetta er smá workout.
  5. Málaðu nú eina umferð. Ef það koma klessur skaltu taka þær af eða pressa niður með rúllunni og dreifa niður.
  6. Bíddu í hálftíma og málaðu þá aftur yfir. Hún þornar fljótt svo þetta tekur ekki langan tíma. Því fleiri umferðir sem þú ferð með segulmálningunni, því betur heldur hún segulum. Ég fór þrjár eða fjórar umferðir.
  7. Þegar segulmálningin er alveg þornuð geturðu málað aftur yfir með hvaða lit sem er, hvaða málningu sem er. Taramm!
Búin að mála tvær umferðir af hvítu, raða upp Instagram myndum og gera fínt. Ótrúlega flott! Næst er bara að búa til fleiri góðar minningar, fylla allann vegginn.
Búin að mála tvær umferðir af hvítu, raða upp Instagram myndum og gera fínt. Ótrúlega flott! Næst er bara að búa til fleiri góðar minningar, fylla allann vegginn.

Svona pantar þú Instagram segulmyndir

Næsta skref er að verða sér úti um Instagram myndir á seglum. Mitt persónlega Instagram er fullt af allskonar kvótum og setningum ásamt gömlum og nýjum myndum og minningum úr ferðalögum, matarmyndum og svona því sem mér finnst skemmtilegt í lífinu.

Sticky9-instagram-segullÁ Sticky 9 getur þú bæði pantað eigin myndir en líka myndir sem aðrir hafa tekið eða leitað eftir myllumerkjum.

Þú velur bara myndirnar sem þig langar að fá og borgar (sirka 1000 kr fyrir 9 stk) og svo er þetta komið til þín, beint inn um lúguna, nokkrum dögum síðar.

Fyrirtækið er í Bretlandi svo sendingin tekur ekki langan tíma, og þetta er alls ekki dýrt. Þess utan eru þau alltaf að dæla á mann tilboðum í gegnum póstlistann.

Það hefur enginn komið í heimsókn til mín sem hrífst ekki af þessum frábæra Instagram vegg og gestir hafa allir orð á því hvað þetta er frábært þannig að ég finn mig eðlilega knúna til að deila þessu með ykkur pjattrófum. Sharing is Caring hefur nú verið stefna og mottó Pjattsins frá fyrsta degi.

Svo er alltaf hægt að panta nýjar myndir enda alltaf að koma nýjar minningar og fleira gott sem gleður í lífinu og vert er að festa á, ekki filmu, heldur segul 📸

Gangi þér vel kæri lesandi og ekki hika við að senda mér póst á margret (hja) pjatt.is ef þig vantar aðstoð eða vilt vita meira um þetta.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest