Nú þegar sumardagurinn fyrsti nálgast óðum er um að gera að fara að gera fínt utandyra.
Um helgina tók ég mig til og bjó til sælustað úti á svölunum mínum. Ég þreif útihúsgögnin, grillið og sópaði svalirnar. Því næst ákvað ég hvaða blóm mig langar til að hafa á svölunum í sumar og hvaða litum þau eiga að vera. Einnig ákvað ég að hafa púðana í útistólunum í sterkum fallegum litum í ár.
Það er eitthvað svo frísklegt og sumarlegt að hafa liti í kringum sig. Vinsælustu litirnir í ár eru túrkis, appelsínugulur, gulur, fjólublár, bleikur og lime græni liturinn. Eða nánast allir frísklegir litir. Skemmtilegt er að blanda litum saman en eins er fallegt að nota einn lit í nokkrum litatónum.
Púðar, teppi og blóm geta gert gæfumuninn á útlitinu á svölunum þínum. Eins er sumarlegt að eiga plast diska og glös í sterkum litum. Skella ávöxtum í skál og vatni með sítrónu í könnu og þú ert komin með sælureit. Húsgögnin geta verið plasthúsgögn, tréhúsgögn, basthúsgögn eða gömlu góðu eldhússtólarnir. Aðalatriðið er að skapa skemmtilega litríka og kósý stemningu þar sem þú getur notið íslenska sumarsins í botn þó þú eigir ekki garð með risa verönd.
Hérna koma svo nokkrar hugmyndir af fallegum svölum, sumarlegum og sætum…
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.