Ég hef alltaf jafn gaman af því að skoða svona rómantískar og sætar íbúðir – þessi er algjör gullmoli.
Íbúðin er staðsett í Gautaborg í Svíþjóð og það er búið að nostra alveg einstaklega vel við hana. Hlutirnir passa allir algjörlega saman, litavalið fallegt og létt. Flest húsgögnin eru uppgerð, þar að segja eldri húsgögn sem gerð hafa verið upp í léttari stíl en þau voru áður. Útkoman er algjört æði.
Marían í glugganum setur sinn svip á stofuna, enda stór og flott. Annars er sófinn einstaklega djúsi og þægilegur með öllum þessum púðum og gærum og mávamyndin á veggnum er sérlega skemmtileg.
Taktu eftir smáatriðunum, sjáðu skrauthilluna á veggnum. Bara lítil sæt hilla sem gerir þó svo mikið. Gamla ferðataskan er auðvitað bara algjört æði!
Tímaritarekkinn er nettur og flottur. Flest öll viðarhúsgögnin hafa verið máluð og pússuð niður til að láta þau virka eldri en þau eru. Það kemur vel út að hafa sama litinn á þeim öllum. Gefur heildinni skemmtilegan svip.
Lítil og nett skrifstofa við gluggann
Svefnherbergið er allt í dúllum og blúndum, hundrað prósent sveita rómantík í gangi hér á bæ. Taktu eftir rúmgaflinum. Virðist vera gamalt fatahengi með snögum og spegli og alles. Gólfið er hvítlakkað eins og annarsstaðar í húsinu nema eldhúsinu sem við förum í núna…
Eldhúsið er einstaklega heillandi og fallegt. Rauði múrveggurinn setur sinn svip á eldhúsið og hleypir smá lífi í það á móti hvíta litnum.
Ákaflega heillandi og fallega rómantísk íbúð, stútfull af blúndum og dúlleríi!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.