Þá er dagurinn að byrja og margir að gera sig klára til að mæta á skrifstofuna, en sumir fara þó ekki langt – eru bara með skrifstofuna heima.
Ef þú vinnur sjálfstætt og vilt spara kostnað eða ert í skóla og þarft að vinna daglega að náminu er um að gera að búa til skemmtilega og góða vinnuaðstöðu þar sem þú færð nógan innblástur.
Það sem þú þarft að hugsa um ef þú átt aukaherbergi:
- Innréttaðu herbergið í léttum tónum.
- Hafðu nóg af hillum eða lokuðum skápum til að geyma gögnin þín.
- Fallegt er að hafa myndir á veggjunum.
- Krítartafla eða korktafla til að hengja minnismiða á er þægilegt þegar það er margt sem fólk þarf að muna.
- Komdu fyrir þægilegum og fallegum stól sem þú getur sest í til að lesa bækurnar þínar.
- Hafðu léttar og ljósar gardínur svo sólarljósið komist inn.
Það sem þú þarft að hugsa um ef þú átt EKKI aukaherbergi fyrir skrifstofu:
- Hafðu vinnuaðstöðuna sýnilega.
- Ekki bora henni út í horn þar sem hún verður óþægileg og jafnvel ómögulegt að vinna við hana.
- Oftast er það þannig að við notum vinnuaðstöðu heima hjá okkur tímabundið (skólafólk).
- Gerðu vinnuaðstöðuna þannig að hún tilheyrir stofunni.
- Gott er að hafa skrifborðið upp að glugga, hafa blóm og aðra létta skrautmuni í gluggakistunni á móti.
- Hafðu hillur nálægt, fyrir ofan skrifborðið eða við hliðina til að nota fyrir gögnin þín.
Fallegir skrautmunir í kringum eða í vinnuaðstöðunni
- Stórt dagatal
- Stór klukka
- Léttar hillur (IKEA – rammahillan til dæmis)
- Fallegar myndir
- Gamlir símar, ritvélar eða annað sem tengist því sem þú ert að gera
- Fallegur kósí stóll sem passar við hin húsgögnin sem þú átt
- Blóm, má vera plastblóm. Blóm veita yfirleitt vellíðunar tilfinningu og eru einnig mjög falleg. Setja smá lit í tilveruna.
- Tímaritabox og/eða tímarita mumbla á gólfið
- Box fyrir penna, blýanta, límmiða o.fl.
Mundu að þú þarft að vinna við þessa aðstöðu svo það er um að gera að gera hana nógu þægilega og skipulagða þannig að þú þurfir ekki alltaf að leita af öllu sem þú þarft að vinna með. Eins þarf vinnuaðstaðan að vera björt þannig að ef þú ert ekki með glugga nálægt er nauðsynlegt að hafa nóg af lýsingu. Nóg er til af fallegum standlömpum og eins borðlömpum.
Hérna koma svo nokkrar myndir sem sýna ótrúlega fallegar og skemmtilegar vinnuaðstöður heima hjá fólki …
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.