Þetta fallega hús var byggt árið 1970 í Texasfylki í Bandaríkjunum og hefur nú verið tekið allt í gegn.
Húsið var stækkað um helming, skipt var um gólfefni í öllu húsinu og nýjum innréttingum komið fyrir. Breytingin er dásamleg! Heimilið er listrænt, nýtískulegt en jafnframt mjög hlýlegt.
Gólfin fengu dökkt parket og ljósar flísar á móti. Veggirnir er flest allir málaðir hvítir nema í svefnherbergisálmunni. Þar fá litirnir að njóta sín; túrkisblár er í aðal svefnherberginu, bleikur litur er á herbergi heimasætunnar og bókaherbergið fær nettan karrýgulan lit. Einstaklega frísklegt og töff að þora að setja svona sterka liti á veggina.
Takið einnig eftir túrkislitnum í stofunni. Þarna ná þau að tengja litina í húsinu saman með tveimur hekluðum setukollum. Svona heklaðir kollar eru að koma sterkir inn í innanhústískuna í ár enda ótrúlega krúttlegir og flottir.
Mikið er um falleg listaverk í húsinu og áberandi eru leikföng sem fá að njóta sín í sérsmíðuðum hillum í stofunni. Hillurnar eru með baklýsingu sem gefur hlutunum ævintýralegt útlit. Eldhús og baðherbergi eru klassísk og mikill léttleiki í gangi þar. Hreint og smart útlit.
Meiriháttar flott hús með flottum innanhúsmunum sem fá að njóta sín hvert á sinn hátt…
__________________________________________________________________________
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.