Finnar eru alveg ótrúlega smekklegir þegar kemur að hönnun… Enda ansi margir heimsfrægir hönnuðir sem koma frá Finnlandi.
Þetta fallega sumarhús er nýbygging og stendur á fallegum stað umkringt hrauni og trjám. Glerveggir og minimalismi eru það fyrsta sem maður kemur auga á, sem og auðvitað náttúrufegurðin kringum húsið sjálft.
Húsgögnin og innréttingarnar eru léttar og ljósar svo að arkitektúrinn fær að njóta sín sem best. Glerveggirnir sýna útsýnið á sinn einstaka hátt og gera umhverfið ævintýralegt. Eflaust æðislegt að gista þarna, bæði fallegt og kyrrlátt umhverfi.
Takið eftir gólfefninu, veggjum og lofti, allt úr sama viðnum en gluggarnir fá svarta umgjörð þannig að þeir virka eins og rammar utan um hina margbreytilegu sýn fyrir utan húsið.
Veröndin kringum húsið er fullkomin fyrir grillveisluna og fjölskylduboðin. Húsgögnin vel valin, einstök hönnun sem er algjörlega klassísk. Fellur mjög vel í umhverfið sitt og hver hlutir nýtur sín sem best.
Það sem ég tek eftir líka á þessum fallegu myndum eru blómapottarnir, þarna er ekkert verið að ofskreyta með of miklum blómum og veseni. Nei þarna eru örfáir svartir leirpottar með einföldum trjám. Kemur ótrúlega vel út, bæði smart og friðsælt.
Til að toppa þetta þá er fullkomið gufubað í húsinu. Svona til að fá algjöra slökun. Algjört draumahús!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.