Fyrir nokkrum árum síðan bjó ég í hollandi og eignaðist þar góða granna; Mabel og Ilja sem bjuggu beint á móti í fallegu einbýlishúsi á tveim hæðum.
Þegar þau stækkuðu upp úr barnarúmunum og byrjuðu í skóla var ákveðið að allri efri hæð hússins yrði breytt í herbergis-og leikrými fyrir þau. Systkinin fengu að ráða lita og húsgagnavali en Ilja, sem hafði mjög gaman af hermönnum, ákvað að einn veggurinn yrði með camouflage munstri en flotað gólfið átti að vera grasgrænt af því það minnti hann á fótboltavöll.
Mabel var búin að versla draumaljósið; litaða glerljósakrónu með gulum, bleikum, grænum og bláum lit sem henni þótti afar fallegur og á vegginn vildi hún fá sömu liti og voru í ljósakrónunni, nema bara í röndum.
Þetta var auðvelt. Þegar búið var að mála vegginn hvítan var sett málningarteip sem mælt var í mismunandi breiddum og síðan málað gult, grænt, blátt og bleikt. Þá valdi hún uppáhaldslitinn sinn fyrir flotaða gólfið, BLEIKT.
Og þar sem hún er lítil pjattrófa vildi daman fá vask í herbergið sitt. Þau voru með sameiginlegt baðherbergi en henni fannst alveg óþarfi að þurfa að deila vaski með bróður sínum.
Það er um að gera að leyfa börnunum að ráða þegar kemur að þeirra herbergi og litavali, þau vita hvaða þau vilja, því þegar upp er staðið þá eru það börnin sem verja tíma sínum í barnaherberginu. Þau hafa skoðanir alveg eins og við fullorðna fólkið og útkoman er oft stórskemmtileg.
myndir: Díana Bjarna
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.