Svíar eru þekktir fyrir vandaða stílhreina hönnun og þetta hús ber öll þess merki en léttleiki og einföld fegurð einkenna þetta fallega sumarhús.
Húsið er á tveimur hæðum og með stórri sundlaug fyrir framan. Þarna er ekkert verið að setja einn lítinn pott út í horn, heldur myndarlega sundlaug. Pallurinn er bæsaður í gráum tón, en það er eitt það vinsælasta í litum fyrir palla í dag. Það er léttur litur, auðvelt að halda honum við og svo er hann auðvitað mjög fallegur.
Húsgögnin eru flest hvít, bæði húsgögn frá Arne Jacobsen og eins stórir og miklir stólar, svona mjúk kósí stemning. Takið einnig eftir stráhöttunum upp á vegg í hjónaherberginu. Mjög smart fylgihlutir fyrir sumarhús.
Held að ég færi nú ekkert úr fríi ef ég ætti eitt svona fallegt sumarhús, útsýnið er líka æðislegt, friðsælt og fallegt!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.