Stórir og karaktermiklir speglar gera ótrúlega mikið fyrir rýmið
Hvort sem þeir eru í stofunni, svefnherberginu eða í forstofunni þá skapa þeir sérstaka stemningu þar sem þeir standa tignarlegir og flottir.
Sjálf er ég mjög hrifin af speglum inn í svefnherbergi. Helst eins stórum og mögulegt er með smá skrauti í rammanum. Þeir gjörbreyta hverju svefnherbergi og svo er bara svo þægilegt að geta mátað fötin sín fyrir framan risa spegil. Sjá heildarmyndina áður en maður stígur út úr húsi.
Þessi mynd sýnir tvo spegla, einn sem stendur á gólfinu og passar ótrúlega vel við þennan sæta sófa og svo hinn sem er upp á vegg. Speglar og myndarammar fara vel saman, þegar þeim er blandað saman sem veggjaskrauti kemur ákveðinn karakter og hreyfing á vegginn sem gerir hann áhugaverðari og flottari.
Svo eru það krúttspeglarnir sem fullkomna kommóðuna. Kommóðan virkar stærri og tignarlegri með fallegum spegli ofan á. Heildarmyndin er fullkomnuð.
Kíktu á þessar flottu myndir til að fá fleiri hugmyndir um flotta staðsetningu á speglum og stærðum og gerðum. Því það getur ekki klikkað að smella eins og einum fallegum spegli inn í rýmið þitt til að gera það fallegra, þægilegra með dass af smekklegum karakter.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.