Íbúðin skartar hvítum veggjum og hvítum gólfum – já ég sagði hvítum gólfum
Það er ekki algeng sjón að sjá hvít gólf nema þá þau gólf sem eru flísalögð í hvítu. En í þessari ofur fallegu og fáguðu íbúð hefur gólfið verið flotað og málað hvítt. Til að fá meiri dýpt og hlýleika í rýmið eru svo gólfmottur notaðar í hvert og eitt rými.
Gólfmotturnar eru engar alveg eins, misjafnar stærðir og misjafnt munstur en þær harmóna þó ákaflega vel saman. Hvítar með fínlegu svörtu munstri og svörtum köntum.
Takið eftir glerhurðinni í stofunni. Engar viðarhurðir eru í íbúðinni til að halda heildarmyndinni léttri. Hver hlutur á sinn stað í íbúðinni og er hún hreint augnakonfekt hvert sem litið er.
Brúnu tónarnir í húsgögnunum tóna vel við hráa og minimal umgerðina sem ræður ríkjum og gefa heimilinu góðan og hlýjan karakter.
Eldhúsið er lítið og nett með þrælflottum þakgluggum en hvert smápláss í rýminu nýtur sín mjög vel.
Borðstofan er algjört augnakonfekt, þarna sjáum við nútímalega hönnun í bland við smá sixties fíling. Loftljósið er meiriháttar smart yfir brúna borðstofuborðinu svo ég tali ekki um hráa vegginn sem skilur milli borðstofu og stofu. Algjört listaverk!
Til að fá þessa dýpt inn í svefnherbergið er veggurinn á bak við rúmið hafður í tveimur litum. Hvítum og dökkbrúnum, gólf og loft fá að halda sér hvít en gólfmottan er í sama stíl og aðrar mottur á heimilinu og fæst þar auka tenging á milli rýma sem er algjört æði.
Síðast en ekki síst er það baðherbergið. Þvílík fegurð í einu rými. Algjör dásemd. Marmaraflísar á veggjum, brúnir tónar í skápum og hillum, risa baðker og meiriháttar lýsing.
Þetta er íbúð sem er algjörlega í vá-klassanum yfir stílhreinleika, fegurð og klassískar áherslur sem koma til með að standast tímans tönn.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.