Í þessari fallegu íbúð er náttúrulegri eik blandaðri við svart bæsaða og hvít bæsaða eik og útkoman er stórglæsileg.
Svartbæsaða eikin nær að njóta sín vel í eldhúsinnréttingunni og einnig í innréttingum víða um íbúðina. Gólfin eru hvítbæsuð eik og ljósgráar flísar. Gegnheil eik er svo notuð í borðstofuborðið og eins kubba viðsvegar um íbúðina. Kubbarnir eru mjög sniðugir og ferlega flottir. Hægt er að nýta þá sem kolla, hliðarborð og sem hlýlega skrautmuni.
Það sem þarf að muna ef fólk er með gegnheila viðarkubba eins og þessa er að í flestum tilfellum þarf að vökva þá reglulega því viðurinn þornar í loftslaginu hérna á Íslandi (ekki nógu rakt). Ef það er ekki gert springur viðurinn hraðar og myndar djúp för. Vissulega er mikill persónuleiki í vel sprungnum gegnheilum viðarkubbi en samt ágætt að hafa þetta í huga svo hann fari hreinlega ekki í tvennt einn daginn.
En aftur að litavalinu í viðnum í íbúðinni. Það kemur ótrúlega vel út að blanda þessum þremur ólíku litum saman, hvíttaða eikin er létt ásamt gráu gólfflísunum. Eldhúsinnréttingin er með mikinn karakter þar sem viðurinn kemur vel í ljós. Gegnheila eikin gefur svo heildarmyndinni einstakan hlýleika.
Hver hlutur er með sinn stað og ákaflega vel vandað til verks varðandi uppröðun. Skemmtileg og falleg íbúð…
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.