Þetta fallega hús er í borginni Toronto í Kanada. Húsið er bjart og opið, með fimm svefnherbergjum og hvorki meira né minna en sjö baðherbergjum (minna má það nú varla vera).
Hönnunin er nútímaleg og innréttað með afskaplega fallegum innréttingum og húsgögnum.
Gluggarnir njóta sín mjög vel, enda háir og flottir. Ná frá gólfi og upp í loft. Taktu líka eftir parketinu sem er ljós eik og hvað teppið kemur vel út við sófann. Mjúkt og myndar fallega mótsögn við slétt leðrið í sófanum.
Eldhúsið er algjört augnayndi. Bjart, opið og fallega innréttað. Rauði liturinn á barstólunum setur punktinn yfir i-ið og skapar skemmtilega stemningu.
Rauði liturinn teygir sig svo inn í borðstofuna þar sem þessi tignarlegi og flotti stóll stendur. Milli stofu og borðstofu er arinn sem hægt er að njóta hvoru megin sem þú stendur við hann.
Taktu eftir lýsingunni, þarna er bæði gólflýsing og falleg loftlýsing. Góð og rétt lýsing skiptir höfuðmáli þegar hanna skal fallegt rými.
Það er alltaf klassískt og smart að setja veggfóður fyrir aftan hjónarúmið. Það rammar inn herbergið og stemningin verður góð. Blái lampinn kryddar heildina heilmikið enda brjálæðislega flottur.
Þarna rétt glittir í eitt af baðherbergjunum, taktu eftir baðkerinu…algjört æði! Stóra ljósmyndin á veggnum er líka töff.
Eflaust ekki slæmt að liggja í þessu baði og með þetta dásamlega útsýni sér við hlið!
Létt, falleg og hrein hönnun í nútímalegri íbúð með meiru.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.