Það fer víst ekki fáum orðum um það hversu mjög ég er hrifin af skandinavískum sjarma
…. ég heillast algjörlega af léttleikanum, samspili lita og húsgagna í skandinavískri hönnun. Íbúð þessi er í Gautaborg, Svíþjóð og er upp á efstu hæð í fjölbýli. Hún státar af bjálkum í lofti (burðarbitum) og fá þeir að haldast í sinni upprunnalegu mynd, þar að segja eru aðeins lakkaðir með glæru lakki. Þannig setja þeir sinn svip á heildina og gefa íbúðinni sérstakann sjarma.
Kamínan hlýjar í horninu, bækur liggja á burðarbitanum í loftinu og myndirnar á veggnum njóta sín vel í óskipulagðri röð, svo ég tali nú ekki um hægindastólinn sem er algjört konfekt
Sniðugt að nota burðarbitann sem bókahillu, kemur bara vel út.
Eldhúsið er mjög rúmgott og snyrtilegt. Barstólarnir eru líka algjört nammi fyrir augað.
Sjöan kemur mjög vel út í borðstofunni og er þessi skemmtilega útgáfa af stólunum með leðursetu í brúnum lit en umgjörðin sjálf er svört. Loftljósin í eldhúsi og gangi eru einföld koparljós og draga ekki úr áhrifum burðabitanna í loftinu
Í svefnherberginu spilar rúmteppið og rúmfötin stærsta hlutverkinu en þau eru í gráum og brúnum tónum og fylla herbergið af hlýju. Annars er herbergið mjög látlaust, hvítmálað með örfáum skrautmunum. Létt og laggott.
Baðherbergið er ósköp látlaust líka, með hvítum og gráum flísum, snyrtilegt og fínt en þó laust við allan vaaaá faktor.
Auðvitað endum við lesturinn á svölunum en Svíar eru þekktir fyrir krúttlegar svalir. Enda njóta þeir svalanna á hvaða árstíma sem er og ef það er kalt úti þá eru bara þeim mun fleiri púðar og teppi á svölunum.
Dásamleg íbúð í ekta skandinavískum stíl
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.