Mér áskotnaðist þessi fallegi, ítalski rokókó stóll fyrir nokkrum árum en stóllinn segir eflaust merkilega sögu af þeim ítölsku aðalsmönnum og konum sem í honum hafa setið.
Það hefur alltaf staðið til að láta bólstra hann og í sumar keypti ég loksins grænt flauelsefni á stólinn á efnamarkaði í París sem heitir Marché St. Pierre.
Þessi vinsæli markaður er í heilu vöruhúsi á fimm hæðum í 18. hverfi borgarinnar og ein hæðin er undirlögð af áklæði fyrir stóla, sófa og gardínur. Valið var því augljóslega mjög vandasamt og mig minnir að ég hafi farið út til að fá mér kaffibolla í miðri leitinni bara til að ná áttum í valkvíðakasti. Um leið og ég rak augun í græna efnið var málið þó í höfn.
Já, stóllinn yrði grænn og í honum skyldi ég sitja og fá gróskumiklar hugmyndir í stíl við vænan litinn.
Það var svo á Íslandi að leiðir mínar og Halldórs bólstrara lágu saman. Halldór rekur HS Bólstrun í Kópavogi og er mikill hagleiksmaður. Hann bauðst til að binda stólinn upp á nýtt, bólstra með græna áklæðinu og bera á viðinn. Í stuttu máli vildi Halldór gera stólinn eins og nýjan en með því móti myndi hann endast ævina á enda.
Ég skildi gamla lúna rokókóstólinn eftir kom viku síðar að sækja gjörbreyttan grip. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að breytingin yrði svona mikil. Viðurinn í stólnum hafði verið skraufþurr og grámóskulegur. Mér skilst að hann hafi drukkið endalaust í sig af viðarolíu, enda var hann orðin brúnn og hlýlegur þegar ég fékk hann aftur.
Það var auðvitað djarft að setja skærgrænt áklæði á stólinn. Í litlu rými gæti liturinn orðið frekur en útkoman finnst mér svo falleg. Áhættan var vel þess virði, grænt passar einmitt við þennan ítalska og suðræna grip.
Svo er líka alger snilld að finna forláta dýrgripi í Góða hirðinum eða á flóamörkuðum og fagmenn til að bólstra þá og gera eins og nýja og fyrir þá sem vilja hafa samband við snillinginn Halldór Jónsson bólstara í HS Bólstrun er hann í Auðbrekku 1, Kópavogi.
Smelltu hér til að skoða myndir af bólstrunarferlinu:
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.