Í dag kíkjum við á hús sem er staðsett í borginni Lasne í Belgíu en húsið er mjög nútímalegt, hvítt að utan sem innan og með ákaflega fallegan og vel hirtan garð.
En það hefur ekki verið nostrað einungis við garðinn heldur hefur allt húsið fengið góða og mikla umhyggju ef dæma má eftir fegurð myndanna. Húsgögnin eru vel valin, létt, nútímaleg og klassísk hönnun sem lifir ár eftir ár og fer ekki úr tísku.
Stofan er í björtum, hlýjum tónum og virkar mjög þægileg og flott. Svörtu leðurstólarnir eru hönnun eftir Le Corbusier og passa ákaflega vel við léttu húsgögnin í kring.
Borðstofan er umkringd þessum fallegu gluggum sem óneitanlega setja sterkan svip á heildina. Standlampinn er með risa karakter og appelsínugula skálin á miðju borðstofuborðinu gefur heildinni þetta litla extra úmpf sem gerir heildina fullkomna.
Svart hvítt eldhús með þrælgóðri lýsingu. Vínkælirinn kemur mjög vel út á dökka veggnum með háu skápunum.
Holið á efri hæðinni er nýtt sem tómstunda rými. Svæði þar sem hægt er að lesa í rólegheitunum, horfa á góða mynd í dásamlegum Eames lounge stólum og hafa það kósý.
Hjónaherbergið er rúmgott og stílhreint og við hliðina á herberginu er svo húsbónda baðherbergið – en suite. Fallegir gráir tónar umleika það og veita hlýju og fegurð.
Baðherbergið er rúmgott eins og hjónaherbergið og engu til sparað til að gera það þægilegt og flott. Meira að segja er gólfteppi þarna inni sem er óvanalegt en mjög kósý.
Þessi eign er guðdómleg bæði að innan sem að utan fyrir þau sem eru hrífast af nútímalegri og klassískri hönnun í bland.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.