Antík húsgögn hafa alltaf verið vinsæl enda hafa þau oft tilfinningalegt gildi fyrir eigendur.
Aðrir eru einfaldlega hrifnir af formunum, áferðinni og litunum í eldri hlutum. Sumum finnst of mikið að raða mikið af antík húsgögnum saman í eitt rými og er því ágætis lausn að blanda þeim gömlu og nýju saman. Útkoman er oft glæsileg.
Ein stór falleg antík mumbla getur breytt andrúmsloftinu í stofunni til muna. Húsgagnið setur sitt mark á svæðið og með því að blanda eldri hlutnum við hin nýju nýtur gamli hluturinn sinn oft betur en ef hann væri staðsettur í kringum fleiri eldri muni.
Eins er vinsælt að nota gamlar hurðar, glugga og jafnvel hurðar af gömlum hlöðum eða fjárhúsum til að skreyta með. Það getur verið mjög flott að skella einni eldri hurð inn á baðherbergi, eða nota sem gafl á rúmi svo eitthvað sé nefnt. Tignarlegir antík speglar setja líka sinn svip á svæðið enda ákaflega fallegir og rómantískir margir hverjir.
Hérna koma nokkrar frekar flottar myndir af gömlum og nýjum húsgögnum sem er raðað á skemmtilegan hátt saman…
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.