Þar sem það er nú aðeins mánuður eftir af vetrinum er við hæfi að smella í eina sumarfærslu
Sumarið er stutt hjá okkur Íslendingum það vitum við öll. En þá er líka um að gera að nýta það sem best og skapa huggulega sumarstemmningu í kringum okkur.
Nú er rétti tíminn til að taka til á svölunum, sópa þær og undirbúa fyrir komandi sumar. Hugsa um það hvernig húsgögn við getum sett á svalirnar, hvernig blómin eiga að vera á litin. Sumir velja einungis græn blóm og tré á meðan aðrir vilja hafa blómin í fjölmörgum sumarlegum litum.
Litríkir púðar og hlý teppi henta okkar veðurfari vel og er tilvalið að hafa slíkt við hendina til að henda út á svalir í sumar. Þá sérstaklega á kvöldin og þegar við erum að njóta kvöldsólarinnar.
Kertaluktir hafa verið mjög vinsælar og þær halda áfram að vera jafn vinsælar í sumar og næsta vetur. Enda mjög hlýlegt og einstaklega kósí að eiga notalega stund úti að kvöldlagi undir kertaljósi.
En svalirnar þurfa ekki að vera stórar svo þú getir notið þeirra, hægt er að koma einu litlu borði og stól fyrir nánast á hvaða svölum sem er. Skella einu til tveimur pottablómum á borðið eða hengja blómin á handriðið, þá ertu komin með dásamlega sumarstemningu beint heim í hús og getur boðið vinkonu eða vini uppá hádegismat eða svalardrykk úti á svölum.
Njóttu tímans og byrjaðu að undirbúa sumarið, kíktu á albúmið til að fá fleiri hugmyndir og gangi þér vel!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.