Það er fátt betra en góður ilmur á heimilinu
Þegar heimilið angar af hreinleika, vori og léttleika
Ég rakst á þessa snilld á Pinterest og ákvað að prófa sjálf. Búa til minn eigin ilm fyrir heimilið úr náttúrulegum efnum sem flestir eiga nú til í ísskápnum hjá sér. Enda mjög oft sem ég hendi afgang af ferskum jurtum og þvílík eyðsla og rugl, miklu betra að nýta jurtirnar í góðan ilm. Sumir setja jafnvel smá svona ilm í litla krukku og setja hana svo inn í fataskáp hjá sér – algjör snilld!
Ég ákvað að byrja á einföldum ilmi sem er mjög léttur og ferskur.
Það sem þarf til að búa þessa dásemd til er
- 2 Sítrónur
- 1 tsk vanilla
- 2 greinar af rósmarín greinum (ferskum)
- Og auðvitað vatn.
Þú byrjar á því að skera sítrónurnar niður í sneiðar og kreistir örlítið af safanum úr þeim í pott. Bætir einum deselítra af vatni út í, greinarnar af rósmaríninu og einni teskeið af vanillu.
Færð þetta til að sjóða og lækkar þá hitann þannig að þetta rétt svona mallar saman. Bætir vatni út í þegar það vantar og passar að vatnið rétt svona flýtur ofan á sítrónunum og rósmaríngreinunum.
Eftir örlitla stund er allt heimilið farið að anga af vori og léttleika og þá er tilvalið að smella þessu í sæta krukku og setja í stofuna, eldhúsið, baðherbergið eða forstofuna.
Auðvitað er hægt að nota fleiri ilmi, leika sér með appelsínubörk, mintu, lime, engifer og fleiri ferskar jurtir. Bara um að gera að nota hugmyndarflugið og byrja!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.