Þessi fallega íbúð er í Gautaborg en þar hefur margur íslendingurinn alið manninn í gegnum árin.
Íbúðin er í gömlu húsi en hefur verið mjög vel gerð upp. Meðal annars hafa upprunaleg gólf, sem lögð eru þessu fallega fiskiparketi, verið slípuð upp og lofthæðin hefur haldið sér.
Íbúðin er opin og björt og stofa og eldhús samliggjandi eins og svo algengt er í dag. Eiginlega bara standard á nýjum íbúðum.
Úr stofu og borðstofu er hægt að fara beint út á svalir þar sem notalegt gæti verið að sitja og drekka kaffi með góðri vinkonu.
Ljósahönnun í íbúðinni er úthugsuð en þetta er eitthvað sem við Íslendingar mættum pæla meira í enda kolsvartamyrkur hér á landi í nokkra mánuði á ári og því einstaklega ljúft að geta komið heim í fallega lýsingu sem gefur notalega og góða stemmningu.
Eldhúsið er flísalagt og eftir gólfinu liggur falleg motta sem tónar vel við gólfið. Undir borðstofu/eldhúsborði er svo önnur motta sem tengir rýmin saman enda í svörtum og hvítum litum.
Eigendur íbúðarinnar eru greinilega týpur sem hafa gaman af pottaplöntum en þær gefa rýminu skemmtilegan blæ. Mér sýnist reyndar að pottaplöntur séu að koma sterkar inn á næstu misserum og þá helst svokallaðar “gúmmí” plöntur sem voru á öllum heimilum frá 1950 og uppúr.
Litasamspilið eða pallettan í þessari íbúð er vel hugsuð út frá stærð íbúðarinnar. Þeir eru hlýir og bjartir á sama tíma en hér á myndinni fyrir neðan má sjá svipaða pallettu. Það er mjög snjallt að fara vel í gegnum litapallettur áður en hafist er handa við að mála íbúð og vanda valið.
Íbúð sem tónar fallega saman í litum er alltaf notalegri en sú sem er bara ‘random’ eins og sagt er á góðri íslensku.
Taktu eftir því hvernig litla plöntuskrautið á baðvaskinum brýtur upp stemnninguna hér inni og gefur mikið líf. Punkturinn yfir i-ið.
Æðislega kósý og flottar svalir. Nóg pláss og vel spilað úr því sem fyrir er. Það er sniðugt að koma fyrir kistu á svölunum til að geyma teppi og púða yfir sumarið. Hér á Íslandi er um að gera að hafa þetta alltaf til taks um leið og sólin ákveður að sýna sig, hvort er um vor, sumar eða haust.
Svefnherbergið er frekar lítið en hér er jafnframt gert það besta úr öllu og pottaplönturnar eru líka sætar í glugganum. Það er motta undir rúminu eins og annarsstaðar í íbúðinni en að mínu mati gefa þessar mottur einstaklega hlýlega stemmningu. Furðulegt hvað svona mottur sjást sjaldan á íslenskum heimilum.
Við erum voða föst í að hafa bara parket á íbúðunum okkar en mottur, t.d. undir borðstofuborði og í stofu, koma í veg fyrir slit á gólfum.
Sérlega vel skipulögð og skemmtileg íbúð í Gautaborg!
[heimild: freshome.com]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.