Paola Navone er heimsþekkt fyrir hönnun sína en hún er sannkallaður listamaður
Hún útskrifaðist 1973 sem arkitekt og vann með heimsþekktum arkitektum um allan heim milli 1970-1980. En hún er ekki aðeins menntaður arkitekt heldur er hún innanhússarkitekt, leikstjóri, vöruhönnuður og hefur sett upp fjölmörgar veislur og viðburði. Hönnun hennar er alltaf áberandi, ævintýraleg og litskrúðug þó hún haldi alltaf vel í grunnefnin eins og viðargólf, múrsteinaveggi.
Paola er fædd og uppalin á Ítalíu en hún kallar þó heiminn sitt heimili enda ferðast hún mikið. Aðal heimilið hennar er þó í París og ætlum við að kíkja aðeins á það. Sjá hvernig þessi frábæri, hugmyndaríki og spennandi hönnuður lifir.
Heimilið gæti virkað pínulítið súrrealískt en ef maður skoðar betur þá sést vel hversu kósí og heimilislegt það er. Þarna fá gamlir hlutir nýtt líf og er raðað upp á einstaklega flottan hátt.
Smáatriðin eru ansi mörg og litrík og gera heimilið að verulega spennandi stað. Íbúðin virkar stór og mikil en það er aðallega iðnaðar útlitið lætur það virka svona stórt sem og auðvita grófu veggirnir sem eru algjört æði!
Húsgögnin eru svo sannarlega sérstök hjá henni Paolu en hún hefur breytt mörgum af sínum húsgögnum og gefið þeim nýtt líf. Sérstaklega stólarnir, en þeir hafa fengið nokkrar umferðir af málningu, efnum og skrauti til að hressa sig við.
Sófinn er svo mjallahvítur og frekar stór sem setur mikinn svip á heildarmyndina. Borðin eru algjört nammi fyrir augað en þau gerði hún upp sjálf, lék sér með borðfæturnar og smellti mismunandi borðplötum uppá.
Taktu eftir þessum stólum, liturinn er ljósgrár, borðið aðeins dekkra og svo koma skáparnir bakvið í mun dekkri gráum tón. Listrænt, spennandi en þó mjög huggulegt og hlýlegt.
Eldhúsið er mjög suður evrópskt en þar er vinsælt að hafa eldhúsin í svona grófum stíl, þar sem auðvelt er að ná til allra tækja og tóla enda Ítalir/Frakkar þekktir fyrir sín stóru og miklu matarboð. Stemningin byrjar þó í eldhúsinu þar sem töfrar eru framreiddir og þá verður að vera nóg pláss.
Þessi ljósakróna er bara æðisleg! Þvílíkir litir!… og stærðin á henni fullkomnar borðstofuna.
Svefnherbergin eru í sterkum litum og koma einstaklega vel út. Mjög gaman að sjá smáatriðin í hönnun hennar eins og til dæmis stólinn sem klæddur er í skó og þetta líka flotta náttborð sem þjónaði einu sinni þeim tilgangi að vera barnamatstóll. Töfrandi flott heimili hjá mögnuðum hönnuði!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.