Arkitektinn Lorenzo Castillo hannaði íbúð fyrir listamann í borginni Madríd, Spáni árið 2010 og útkoman er hreint út sagt stórglæsileg, hlýleg, sérstök og öðruvísi
Hátt er til lofts í íbúðinni svo málverk og ljósmyndir njóta sín vel á veggjunum. Mikið er um spegla af öllum stærðum og gerðum og er þeim raðað saman á milli listaverkanna. Húsgögnin eru klassísk, leðurstólar og sófi ásamt borðum úr gegnheilum við.
Það er eins og hvert húsgagn í íbúðinni eigi sér sína sögu. Taktu eftir vegglampanum fyrir ofan stólinn, mjög sérstakur en passar þó fullkomlega við húsgögnin!
Látlaus innrétting þó svo sérstök en hérna fá listaverkin að njóta sín í stað innréttinga. Eldhúsborðið er líka algjört konfekt fyrir augað, risa karakter í því!
Efri hæðin er innréttuð í dekkri tónum. Litasamsetningin er algjörlega fullkomin, verulega falleg og klassísk.
Falleg málverk prýða vegginn við stigann upp á efri hæðina.
Þetta rúm er algjörlega dásamlegt!
Snilldarlausn fyrir höfuðgafl, strengja fallegt klæði í rúmgrindina og taraa! Komin með höfuðgafl sem setur mikinn svip á herbergið.
Hauskúpurnar, myndirnar og uppsetning eru alveg að virka saman í svefnherberginu. Það er nóg um að vera en samt undarlega mikil ró yfir öllu, þannig að heildin er að virka.
Já..hér er hellingur um að vera! Allskonar mynstrum, marmara, veggfóðri, myndum og smáborðum blandað saman inn á baðherbergi en þetta er ósk listamannsins sem býr í íbúðinni og hann er alsæll með herbergið.
Vissulega sérstakt, en það er eitthvað við þetta.
Að lokum er það smá innlit á verkstæði listamannsins.
Alltaf gaman að skoða öðruvísi og skemmtilegar íbúðir. Við erum ótrúlega föst í skandinavískri hönnun hérna í norðri svo stundum er gaman að kíkja aðeins út fyrir kassann og sjá fjölbreytileikann.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.