Það er alltaf gaman að kíkja á flottar piparsveinaíbúðir en þessi er frekar nett eða um 60 fermetrar og nýtist alveg meiriháttar vel.
Stíllinn er léttur og fallegur, blanda af nútímalegum og retro stíl. Útkoman er æðisleg, hlýleg og flott.
Litirnir eru í hvítum, gráum og brúnum tónum. Skemmtilegar útfærslur á hillum og öðrum fylgihlutum gera íbúðina sjarmerandi og heimilislega.
Takið eftir veggjunum í íbúðinni. En þeir fá að halda sér að hluta í upprunalegum stíl, hlaðinn múrveggur. Sjónvarpið dettur inn í gamla hlutann og hillan undir tækin er að hluta falin inn í nýja veggnum. Gefur skemmtilega og flotta vídd í heildina. Svo eru þessi bílar algjört æði.
Skrifborðið kemur með flottan karakter á stofuna og ekki skemmir Eames stóllinn fyrir. Þetta passar fullkomlega saman.
Hilluhólfin fyrir ofan skrifborðið nýtast vel undir bækur og annað skraut. Þau ramma “skrifstofuna” að sérstöku rými inní stofunni.
Grái liturinn teygir sig inn í forstofuna og er hún ákaflega fallega hönnuð í einfaldleika sínum. Gamli spegillinn setur sitt mark á hana og stækkar hana örlítið, fyrir utan að gefa forstofunni flottan karakter.
Lítið og kósý eldhús í hvítum og gráum tónum, með Eames stólana til að fullkomna verkið. Það besta við þessa stóla er að þeir passa nánast hvar sem er og hægt er að nýta þá bæði í stofunni, eldhúsinu, skrifstofunni og í svefnherberginu. Algjör snilld fyrir lítil heimili og þá sem vilja færa húsgögn á milli rýma án þess að þau stingi í stúf.
Baðherbergið er vel nýtt. Hvítar flísar á veggjum og gráar á gólfi. Vaskurinn er algjört æði og eins hillurnar hér til hægri. Grófar og þykkar viðarhillur sem gefa hlýju og smá sérstöðu.
Skemmtilega kósí hjá gaurnum í kvöldbirtunni, greinilega áhugamaður um teiknimyndasögur.
Síðast en ekki síst, litlu sætu svalirnar. Verulega sætar svalir með borði og stól, rauðvínsglasi, kerti, teppi og vonandi er hann einnig með góða bók við hönd.
Fullkomin og flott piparsveinaíbúð í hjarta Moskvu, Rússlandi en gæti allt eins verið hér í Reykjavík.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.