Krítarveggir halda enn vinsældum og þá sérstaklega í eldhúsum
Sniðugt er að mála einn vegg með krítarmálningu eða jafnvel hluta af veggnum.
Þá er auðvelt að skrifa uppáhalds uppskriftina hjá fjölskyldunni á vegginn, skilja eftir skilaboð fyrir einhvern meðlim fjölskyldunnar eða leyfa börnunum að tjá sig með því að rétta þeim nokkrar krítar í skemmtilegum litum. Þá geta þau dundað sér við að teikna á meðan eldað er.
Ein góð vinkona mín á 3 ára stelpu sem vill ólm hjálpa til í eldhúsinu á meðan mamma hennar er að elda. Þrátt fyrir mikinn metnað stelpunnar er samt betra að hún hafi eitthvað annað til að gera svona rétt á meðan mamma hennar eldar matinn.
Vinkona mín keypti lítið eldhús í IKEA og setti upp í eldhúsinu sínu. Eins málaði hún vegginn í kringum leikfangaeldhúsið með krítarmálningu svo nú getur sú stutta eldað og þvegið upp í eldhúsinu sínu eða teiknað á vegginn þann mat sem hún vill elda. Stórsniðugt og þær eru báðar í skýjunum með þessa lausn.
Foreldrið sem eldar fær frið á meðan hann/hún eldar og barnið hefur nóg að gera á meðan.
Ég tók saman nokkrar myndir af flottum hugmyndum fyrir krítarveggi í eldhúsum. Eins er hægt að fá krítarmálningu í all flestum litum nú til dags… þannig að það þarf ekki endilega að vera svartur litur.
___________________________________________________________________
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.