Haustin eru yndislegur tími til að njóta þess að kveikja á kertum og hafa það huggulegt heima hjá sér.
Koma sér vel fyrir upp í sófa, með teppi og kertaljós allt í kring – Ahh gerist ekki rómantískara. Kertaljós gefa einnig frá sér svo fallega birtu sem hefur róandi áhrif á fólk. Einföld og góð aðferð til að slaka aðeins á.
Hér eru nokkrar skemmtilegar hugmyndir um hvernig þú getur gert heimilið þitt rómantískara á augabragði:
1.
Fallegt er að raða upp nokkrum tegundum af kertastjökum saman og stilla upp á borð eða í gluggakistu.
2.
Skerðu gat ofan á epli og settu sprittkerti ofan í. Kemur ótrúlega vel út og er einnig æðislegt sem skreyting á matarborð þegar þú ert með matarboð.
3.
Stórir glervasar með kerti í er alltaf klassík og auðvelt er að skipta út kertum í sitthvorum litum eftir skapi og stemningu.
Ef þú átt gamlar sultukrukkur er sniðugt að setja sand í botninn á þeim og sprittkerti ofan í. Einnig geturðu náð þér í laufblöð, þurrkað þau og sett ofaní eina krukkuna (mátt ekki hafa kerti í þeirri krukku) eða jafnvel trjágreinar… nú er einmitt árstíminn til að stela nokkrum trjágreinum og laufblöðum úr bakgarðinum.
4.
Eins er sniðugt að nota gamla ullarsokka og klippa sokkinn af. Klæða sultukrukku í stroffið af sokknum, skreyta með smá trjágrein og setja kertaljós ofan í. Ferlega smart og persónulegt.
Svo er bara um að gera að vera frumlegur og prófa sig áfram með það sem til er á heimilinu. Skreyta gamla kertastjaka, sultukrukkur, glerflöskur, epli, perur og aðra ávexti. Gangi þér vel og njóttu þess að hafa það gott í skammdeginu:
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.