Í Danmörku leyndist lítið leyndarmál sem nú fer sem eldur um sinu bloggheima.
Fólk stendur á öndinni, á ekki næg lýsingarorð til að lýsa upplifunum sínum og hrifningu af sloti sem áður var óíbúðarhæft en er nú komið í daglega notkun.
Winnie Mølsgaard og eiginmaður hennar Eigil, fluttu höfuðstöðvar sínar í Turebyholm Castle – lítinn yfirgefinn rókókó kastala frá 1754. Fyrirtæki þeirra GENESE, sem þekkt er fyrir lífræn vítamín og steinefni, hefur yfirtekið kjallarann og sjálf hafa þau aðsetur á efri hæðunum.
Þau hafa reist þetta fornfræga hús við með ótrúlegri næmni, nýtt það sem hægt var af gömlum innviðum þess og leyft gömlum arkitektúr að njóta sín án þess þó að láta það sníða sér of þröngan ramma til framkvæmda.
Það er ekkert fyrirsjánlegt við þetta hús, þau hafa með natni og mikilli umhyggju og ekki síst virðingu fyrir viðfangsefninu, valið efnivið og húsbúnað sem hæfir húsinu, þeim og starfsemi þeirra. Þau hafa listilega blandað saman rókókó kastala, art deco smáhlutum og módern húsgögnum. Þau nýta upprunalegar ljósakrónur, handmálað silkiveggfóður, ítölsk húsgögn og danska erfðagripi á þann hátt að úr verður ólýsanlegt ævintýri og veisla fyrir augun.
Hljómar eins og hræðilegur hrærigrautur eða jafnvel verkefni sem ómögulegt er að leysa, en um leið og þið sjáið myndirnar er ekki um að villast……
Er mögulega svona um að litast í himnaríki ? Ég vona það svo sannarlega !
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.