Hin 71 árs gamla Claudia Holland sem er búsett í Texas fékk alveg nóg þegar hún vaknaði upp um miðja nótt við það að útidyrunum var sparkað niður en þjófurinn hljóp hinsvegar í burtu þegar hundarnir hennar hlupu geltandi á móti hinum óboðna gesti.
Hún ætlaði ekki að láta atvikið endurtaka sig og lét því útbúa þetta stóra viðvörunarskilti og setti upp á lóðinni. Gott hjá gömlu!
Ég verð að játa að ég skil nákvæmlega hvernig ömmunni leið. Fyrir nokkrum árum svaf ég ásamt þriggja ára syni mínum værum svefni á heimili okkar í Reykjavík þegar ég hrekk upp við háa hvelli sem enduðu með hárri sprengingu. Ég stekk upp og rýk fram úr og sé strax að útidyrahurðinni hafði verið sparkað upp. Þarna lá hurðin á miðju gólfi og í eldhúsinu stóð hávaxinn karlmaður.
Ég varð æf af reiði yfir dónaskapnum. Maðurinn hafði vakið mig með látum og sonur minn svaf í næsta herbergi. Það var mín fyrsta hugsun að vernda barnið svo ég rauk á manninn, greip í hann og hreinlega henti innbrjótsþjófnum öfugum út og sparaði ekki orðin þegar hann hrökklaðist ringlaður í burtu yfir þessari snarróðu konu sem hafði látið hann fá gott spark í rassinn. Ég hringdi svo í lögguna og sagði þeim að útidyrahurðin væri farin af hjörunum og að gerandinn væri enn á sveimi. Lögreglan kom aldrei til að kanna málið, takk fyrir það, en stóri bróðir minn kom til okkar þegar reiðin var að slokkna og ég var komin í nett sjokk.
Og ekki er þetta búið því fyrir tveimur árum síðan kom ég eins og vanalega heim úr vinnunni þegar ég tók eftir þvi að eitthvað var ekki eins og það ætti að vera. Einhver hefði rótað í gegnum skápa fyrir framan útidyrnar. Ég var ekki lengi að opna dyrnar og stökk inn en allt var í fínasta lagi og ekkert hafði verið fjarlægt. Tilfinningin var hinsvegar enn til staðar og þegar ég leit betur á útidyrahurðina var greinilegt að einhver hefði reynt að brjótast inn til okkar með kúbeini. Þar sem ég var nýbúin að styrkja dyrnar hafði þjófurinn gefist upp, en hann hafði hinsvegar náð að gera þessa líka fínu jólahreingerningu. Hann hreinlega hreinsaði allt út hjá nágrannakonu minni og notaði ferðatöskurnar hennar til að flytja dótið. Ég var ekki lengi að panta öryggiskerfi fyrir heimilið.
Það er aumt en staðreyndin er sú að fólki er ekki treystandi. Eins finnst mér það sérlega sárt að hugsa til þess að ekki eru mörg ár síðan að við ólumst upp í samfélagi þar sem þótti alger óþarfi að læsa heimilum.
Nú er það bara spurning um að fylgja fordæmi þeirrar gömlu og fá sér fínt skilti í garðinn?
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.