Hér erum við með glæsilegt iðnaðarhúsnæði sem hefur verið breytt í íbúðarhúsnæði en staðurinn er í smábæ á Ítalíu.
Uppáhaldshönnður minn hún Paola Navoli hannaði þessa flottu íbúð en hún er fræg fyrir ævintýralegan karakter í hönnun sinni. Frumleika í að blanda saman ólíkum efnum og leyfa hverjum hlut að njóta sín sem best.
Grófir viðarplankar notaðir á gólfin í bland við skrautlegar flísar. Flísarnar koma ótrúlega vel út og gefa heildinni verulega stóran karakter. Veggirnir eru grófpússaðir en fínleikinn í hvítu gardínunum sem hanga um víða íbúð setja rómantískan blæ á heildina.
Húsgögnin koma héðan og þaðan. Mörg hver hafa verið gerð upp og er þeim blandað saman á flottan hátt. Úr verður skemmtileg stemmning sem passar vel við stærðina á húsnæðinu.
Þægilegt í setustofunni, þar sem arininn fær að njóta sín mjög vel.
Taktu eftir þessum flottu flísum. Þær eru með marakóskt yfirbragð og hrikalega flottar. Veggklukkan er líka algjört konfekt fyrir augað, en hún er einmitt gömul klukka sem hefur fengið nýtt útlit með smá málningu og sandpappír.
Að lokum er það baðherbergið – jafn flott og restin af íbúðinni. Æðisleg gömul húsgögn á þessum líka flottu flísum svo ég tali nú ekki um þetta baðker! Eigum við að ræða það eitthvað hvað það er smart! Hvíta gardínan er til að afmarka svæðið og hægt að draga hana fyrir baðkerið svo sá sem í því liggur fái algjört næði.
Það er ekki hægt að segja annað en að heildarmyndin sé alveg hrikalega vel heppnuð!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.