Ég veit ekki með þig en ég þvæ mín einu sinni í viku. Það er einfaldlega vegna þess að ég er pjöttuð pjattrófa og hreinlega elska að leggjast til hvílu á kvöldin í fersk og brakandi hrein rúmfötin.
Púðaverið þitt er suga á öll óhreinindi sem þú berð með þér í rúmið eftir daginn og þegar á líður munu óhreinindin sem safnast í koddaverið hafa áhrif á á ástand húðar, stífla hana og þú færð skemmtilegan bónus; bólur og fílapensla.
Hárnæring, hársprey, gel og annað sem þú setur í hárið og olían sem myndast í hársverðinum; hárfita, sviti, dauðar húðfrumur og önnur óhreinindi af líkamanum smitast í koddaverin og rúmfötin og nuddast svo aftur á húðina.
Þess vegna hafa húðsérfræðingar mælt með því að skipt sé um koddaver á rúminu minnst einu sinni í viku og jafnvel oftar ef þú ert gjörn á að fá bólur og í vanda með húðina.
Það að þvo rúmfötin minnst einu sinni í viku í heitu vatni (mæli með 60°-90°) drepur einnig rykmaura en rykmaurar eru oft valdir að ofnæmi hjá mannfólkinu.
Ef þú vaknar með rauð og bólgin augu og finnur fyrir kláða, þá ertu komin með ofnæmi og mátt alveg kenna rykmaurunum í rúmfötunum um þau óþægindi. Enga leti – skelltu rúmfötunum í þvottavélina!
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.