Guilherme Torres er einn af mínum uppáhalds arkitektum. Hann er hæfileikaríkur, ungur arkitekt frá Brasílíu sem kaus að gera upp og búa í litlu studíó í Londrina í Brasilíu.
Það tók hann tíu ár að fullgera þessa íbúð sem var áður vinnustofa listamanns. Stúdíóið var gersamlega strípað og öllum rafmagns-og pípulögnum skipt út fyrir nýtt.
Guilherme Torres hannar einnig húsgögn en hann ákvað að taka smá u-beygju og í stað þess að hanna borð og sófa með hefðbundnum hætti, steypti hann þessar mublur til að gera þetta varanlegt. Steypta borðið geymir bækur og er notað sem vinnurými fyrir hönnunarhugmyndir hans og er jafnframt borðstofuborð en sófinn er steyptur vegg í vegg og bak hans eru fallegir púðar hannaðir af stílistanum Adriana Barra. Lampar og aðrir persónulegir munir fylla rýmið á hvorri hlið við dýnurnar.
Steypta gólfið er flotað með gúmmíi, múrsteinsveggur var hreinsaður upp í svefnherberginu og fá múrsteinarnir að njóta sín, íbúðin er látin halda hrárri mynd sinni og fallegum húsgögnum er bætt við sem gerir heimili arkitektsins hlýlegt og verulega töff.
endilega kíkið á vefsíðuna hans hér: http://www.guilhermetorres.com/
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.