Bastkörfur hafa lengi vel verið afskaplega vinsælar á heimilum landsins…
…enda eru þær mjög hentugar til að geyma hina ýmsu hluti.
Til dæmis teppi, púða, tímarit, prjónadót, viðarkubba fyrir arininn og svona má lengi telja. Ég er búin að leita mikið að hinni fullkomnu körfu því mig sárvantaði svona. Fyrst ætlaði ég að nota hana undir allan pappírinn sem safnast saman á heimilinu og fer út í bláu fínu tunnuna fyrir utan en svo fannst mér líka nauðsynlegt að vera með eina körfu undir öll teppin og auka púðana sem við fjölskyldan erum með í sófanum.
Það á ekki að hafa of mikið af teppum og púðum í sófanum þegar hann er ekki í notkun. Þá sérstaklega þar sem teppin mín eru ekki öll í sama lit eða jafnvel í sama stíl (uhumm).
Svo niðurstaðan var að næla sér í eina fallega bastkörfu sem geymir teppin á meðan þau eru ekki í notkun og útkoman er æðisleg! Bastkarfan er hlýleg og smart og hægt að nýta á mjög mörgum stöðum á heimilinu.
Til dæmis er hægt að nota bastkörfur á baðherbergjum sem eru lítil eða með litlu skápaplássi, nota hana þá undir klósettpappír eða handklæði. Forstofan er líka vinsæll staður fyrir bastkörfur og þá sérstaklega hjá barnafjölskyldunum þar sem mikið er um vettlinga, húfur og aðrar útiflíkur.
Ég fann bastkörfuna mína í Tekk kompaní en þar eru til sölu nokkrar stærðir og kosta frá 4800-6500 kr.stk sem er frekar gott verð miðað við stærðina á þeim og útlit.
Ef þig vantar bara einn aukahlut á heimilið fyrir haustið þá gæti verið að bastkarfa sé málið, kíktu á þessar myndir til að fá hugmyndir:
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.