Susanna Cots er í algjöru uppáhaldi hjá mér. Hún er frá Spáni og hefur unnið sem innanhússhönnuður í yfir 15 ár.
Í hönnun hennar endurspeglast hlýleiki á móti módernisma. Hún dregur náttúruefnin inn í íbúðina á fullkominn hátt þannig að allt nýtur sín til fulls. Einnig er hún með það í huga að fólk býr í íbúðunum sem hún er að hanna, svo hlutum er komið fyrir á smekklegan og aðgengilegan hátt. Takið til dæmis eftir bókunum, þeim er raðað í hillusamstæðuna á skemmtilegan og léttan hátt í stofuna. Einnig nýtir hún svæðið undir sófaborðinu.
Þessi íbúð er svo mikið uppáhald hjá mér, langar eiginlega mest til að búa þarna! Stóra viðarborðið er bara gordjöss á móti kalda veggnum og hvítu steinunum í lága veggnum við hliðiná. Sófasettið kallar hreinlega á mann og púðarnir setja sinn fallega svip á stofuna. Takið einnig eftir gínunni fyrir framan svefnherbergið, hún fær sinn stað og nýtur sín sem listaverk.
Mesta snilldin finnst mér samt barnaherbergið…
Þarna er ekki mjög mikið pláss svo hún hefur teiknað upp pall þar sem rúmið er upp á, undir eru skúffur fyrir föt eða annað dót. Einnig er útdraganlegt skrifborð sem er auðvita mjög þægilegt þar sem plássið er takmarkað. Stiginn upp á pallinn er einnig með útdraganlegum skúffum svo allt rýmið nýtist sem best. Algjörlega frábær hugmynd fyrir barnið/unglinginn á heimilinu.
Til að toppa þetta þá er pallurinn úti alveg yndislegur. Létt húsgögn, ekki of hlaðið, bara smekklega uppraðað og umfram allt mjög afslappandi umhverfi.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.