Það er eitthvað við heimabari sem mér finnst svalt. Þegar ég var krakki voru mörg velmegandi heimili með heimabari og jafnvel sígarettur og vindla sem hægt var að bjóða gestum.
Til dæmis var hnötturinn mjög vinsæll heimabar og heimili sem státuðu af slíkum hnetti þóttu bera merki um fágun og heimsborgarahátt. Þú varst frekar sigld ef þú kunnir að hrista saman einn Whiskey sour, eða blanda laufléttan Manhattan eftir kúnstarinnar reglum fyrir gesti sem sóttu þig heim, síðdegis á föstudegi. Mjög heildsalalegt. Mjög frímúraralegt.
Nú hafa heimabarir á sér annað yfirbragð en auðvitað veltur það allt á því hversu gaman fólki finnst að drekka vín og kokteila.
Fólk sem hefur mikla ástríðu á kokteilagerð ætti þó sannarlega að koma sér upp flottum heimabar með þar til gerðum karöflum, hristiflöskum, rörum og glösum. Aðrir sem vilja bjóða gestum upp á laufléttan kokteil milli lota geta komið sér upp aðeins minni bar sem inniheldur samt það allra helsta.
Til að geta með stolti rekið lítinn mini-bar á heimili þínu þarftu að eiga eftirfarandi tæki og tól:
1. Sjússaskammtara
2. Tappatogara
3. Sítrónupressu
4. Lítinn hníf og nett skurðarbretti
5. Kokteilhristara
6. Barskeið (skeið öðru megin og gaffall á hinum endanum)
7. Kremjara eða mortel
8. Kokteilabók eða snjallsíma og bookmark á Föstudagskokteilinn hér á Pjattinu
9. Viðeigandi glös
ÁFENGI
– Gin
– Bourbon Whiskey
– Whisky frá Skotlandi
– Tequila
– Hvítt romm
– Dökkt romm
– Vodka (í ísskáp)
Að sjálfssögðu er maður ekki með allt uppi á bar-bakkanum. Verkfæri og áhöld má gjarna geyma í nærliggjandi skáp og sumt er best geymt í ísskápnum en það flottasta sem passar saman setur maður á einhvern skemmtilegan stað. Þú þarft ekki að eiga borð á hjólum eða hnött. Það dugar að eiga bara fallegan, stóran og rúmgóðan bakka eða laust hillupláss til að setja barinn upp.
Til dæmis gætir þú keypt nokkrar speglaflísar og notað sem bakgrunn í eina hillu í hillusamstæðu og þar má stilla upp flöskum og glösum. Meira að segja má þetta vera laus hilla í bókaskáp. Það er bara töff.
Hér eru nokkrar frábærar hugmyndir að því hvernig þú getur sett upp þinn eigin heimabar. Svo er bara að blanda sér einhvern góðan kokteil þegar maður klárar erfiða vinnuviku nú eða á laugardagskvöldi með einhverjum uppáhalds. Munum þó að allt er best í hófi og ekki blanda þá of sterka 😉
Hér hefur krítarmálning verið notuð inn í hillu til að útbúa skemmtilegan heimabar. Karlmannlegt og rustic yfirbragð á þessum bar.
Hér er öllu einfaldlega stillt upp en um leið er gefin hugmynd að því hvernig lokaútkoman gæti verið. Til dæmis gæti verið flott að hafa pott með ferskri myntu á barborðinu. Litirnir á þessum bar spila mjög skemmtilega saman. Rósargyllt og grænt.
Fimm glösum stillt upp á stórar bækur og vínflöskur og hristari eru í bakka á skenknum. Mjög skemmtilegur heimabar. Einfaldur og fínn.
Hér erum við með vínrekkann í heimabarnum. Pellegrino flöskurnar og koparliti kokteilhristarinn eru mjög smart í heildarmyndinni.
Spegill settur á vegginn og glerhillur undir vínið. Svo erum við með hefðbundinn skenk undir og glösin þar á. Ef hægt er að leggja vatn að veggnum þar sem skenkurinn kemur er lítið mál að setja lítinn vask og jafnvel byggja ísskáp inn í skenkinn… en það er auðvitað aðeins fyrir fagmenn og lengra komna.
Aftur er það koparliturinn sem fangar augað en þessi bar er heima hjá leikaranum sem lék Badger í Breaking Bad. Þessi tegund af barhillum eru alveg klassísk mubla og endalaust hægt að leika sér með þá muni sem eru settir þarna með bæði glösum og flöskum. Greinarnar í vasanum í bakgrunni eru líka mjög skemmtilegt skreyti-item.
Er ekki bara málið að stökkva núna út í garð og sækja nokkrar greinar í vasa. Stilla flöskum og glösum á bakka, blanda sér svo góðan drykk, setja föstudags-playlistann í gang og tærnar upp í loft!
HÉR á Pjattinu er að minnsta kosti nóg af kokteila-uppskriftum.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.