Fyrir skemmstu fannst mér komin tími á að endurnýja ljósabúnaðinn í stofunni minni og hófst handa við að leita að hinu fullkomna ljósi.
Eftir að hafa rannsakað málið á netinu og búið til möppu á Pinterest yfir það sem mér fannst flott fann ég því miður ekkert sem samræmdist því í þessum helstu verslunum svo ég brá á það ráð að hanna mitt eigið stofuljós.
Í verslunni Glóey í Ármúla er nefninlega hægt að kaupa allskonar snúrur, perustæði og perur og þannig hæglega hægt að setja saman sitt eigið flotta loftljós.
Ég valdi mér gylltar, brúnar og grænar snúrur í stíl við púða í sófanum, gyllt perustæði og halogen perur í ofurstærð sem gefa ótrúlega fallega og skemmtilega birtu, ýmist ofurbjarta (sem hentar vel við tiltekt) eða kósý og hlýja.
Starfsmaður verslunarinnar hjálpaði mér að setja þetta saman, eða útfæra þannig að auðvelt væri að koma ljósinu upp og svo var ljósið bara sett upp. Kostaði rúmlega 22.000 kr með öllu!
Í Glóey er hægt að fá ljósasnúrur í allskonar litum og allskonar perur og perustæði líka svo hver og einn getur sett saman ljós í stíl við annað sem er að gerast á heimilinu.
Þessi “hráa” tegund loftljósa þar sem perurnar hanga nokkrar saman niður úr loftinu er líka sígild en ég man eftir að hafa heillast af þessari gerð ljósa fyrst fyrir meira en 30 árum þegar ég heimsótti Fanney Bjartmars, vinkonu mömmu á Akureyri en Fanney var líka með gamalt vagnhjól með glerplötu á fyrir stofuborð sem þætti smart á mörgum heimilum í dag.
Það er gaman að geta sett saman hlutina eftir eigin höfði svo að þeir smellpassi á heimilið og ég þakka köppunum í Glóey fyrir vasklega aðstoð!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.