Gráu tónarnir eru alltaf jafn vinsælir en þeir fara auðvitað mjög vel við hvíta og svarta litinn, sem og nánast allar viðartegundir. Fallegast er þó að blanda saman nokkrum tónum af gráum lit og ljós brúnum því þá verður útkoman mýkri og náttúrulegri.
Til að poppa upp gráa litinn er alltaf auðvelt að blanda einum lit inn í stofuna til dæmis. Ef þig vantar upplyftingu inn í stofuna þá geturðu bætt gulum, appelsínugulum eða jafnvel túrkis lit inn í formi púða, kerta eða kertastjaka. Þá er svo auðvelt að fjarlægja litinn aftur þegar hann er orðinn þreyttur.
Oft breyti ég sjálf heima hjá mér með svona smáum breytingum á árstíðarskiptum, hef eitt þema fyrir vor/sumar, annað fyrir haustið og veturinn. Þá virðist heimilið alltaf vera ferskt og nýtt þrátt fyrir að breytingarnar séu ekki stærri en bara púðaskipti í sófanum og nokkur falleg kerti.
Hrár viður eða eins náttúrulegur viður og hægt er fer afskaplega vel við gráu tónana líka. Þegar þessir tveir litir koma saman verður útkoman mjög falleg. Náttúruleg og þægileg, en það er oft það sem við leitumst eftir fyrir heimilið okkar. Fá mýktina og hlýjuna inn ásamt því að vera með nútímalegan stíl.
Hægt er að fá viðardrumba og nota sem sófaborð eða kolla.
Gróf viðarsófaborð gera líka sitt enda með risa karakter og fara mjög vel við sófa í gráum tónum. Ef þú ert svo heppin(n) að eiga heima í gömlu húsi með risi þar sem eru viðarplankar í loftinu þá er ótrúlega smart að hafa þá sem náttúrulegasta og leyfa þeim að njóta sín. Sumir velja að mála þá hvíta og kemur það líka mjög vel út.
Kíkið á myndirnar til að fá fleiri góðar hugmyndir hvernig hægt er að nota gráa litinn til að gera heimilið örlítið hlýlegra
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.