Svefnherbergið ætti að vera griðarstaður þar sem slakað er á og góðum nætursvefni er náð (ásamt auðvitað öðru). Ég tók saman nokkrar leiðir til þess að gera umhverfið notarlegra.
Snyrtilegt rúm
Það er góð regla að búa um rúmið. Fallegt rúm gerir það að verkum að það verður þægilegra og meira slakandi að koma inn í herbergið. Á þessari síðu fann ég nokkur sniðug ráð um hvernig hægt er að breyta til og gera það skemmtilegra að búa um rúmið.
Föt og fatahrúgur
…ættu að vera inni í skáp, samanbrotin og restin (eins og náttföt) snyrtilega lögð á stól. Það er eitthvað stressandi við að sjá fatahrúgu liggjandi á gólfinu, ekki vita hvað er hreint, óhreint, í notkun o.s.frv. Ég tamdi mér þetta fyrir nokkrum mánuðum og leið miklu betur inni í svefnherbergi fyrir vikið.
Myndir á veggjum og flottir lampar
Fallegar myndir á veggjum geta gert helling fyrir umhverfið. Flott náttúruljósmynd, listaverk í róandi litum, engla- og trútengdar myndir fyrir þá sem fíla það eru málið í svefnherberginu. Einnig geta sætir lampar með daufri birtu verið mjög róandi.
Róandi litir
Um daginn tók kærastinn minn sig til og málaði vegg í svefnherberginu við höfuðgaflinn dökk koparlitaðan. Ég get ekki lýst því hvað það gerði mikið fyrir rýmið og svefnherbergið varð margfalt hlýlegra.
Kerti
Kerti og þá sérstaklega ilmkerti sóma sér vel í öllum svefnherbergjum. Það er svo gott að kveikja á kertum þegar maður er að koma sér í svefngírinn… en það þarf að slökkva á þeim aftur!
Leyfðu ímyndunaraflinu að ráða og veldu hluti, liti og stemmingu í svefnherbergið eftir því sem þú heldur að þér eigi eftir að líða vel með á kvöldin þegar þú ferð að sofa og á morgnana þegar þú vaknar. Möguleikarnir eru endalausir!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com