Á okkar kalda fróni er nauðsynlegt að setja smá hlýleika inn til okkar
Auðveldasta, og með fallegri möguleikum, er að smella einni gæru eða flottu skinni í stofuna, svefnherbergið eða í eldhúsið. Möguleikarnir eru endalausir en tvímælalaust mjög fallegir og hlýlegir.
Svefnherbergi eiga oft til að gleymast þegar það er verið að búa til sælureiti heima hjá sér en mjög einfalt ráð er að kaupa sér fallegt skinn eða gæru og setja á endann á rúminu sínu, þar ertu komin með hlýlegheit og smartheit á sama tíma.
Stofan eða sófinn eru líka eitthvað sem ætti að vera hlýlegur og þægilegur staður þegar regnið eða snjóbylurinn dynur á gluggunum fyrir utan. Þá er einfaldlega mjög einfalt að setja púða úr skinni í sófann eða henda eins og einni gæru á hann, útlitið verður strax mjög huggulegt og hlýlegt. Eins er smart að setja gærur á einn stól í stofunni, hafa hana þá stóra þannig að hún flæði yfir arma eða setu stólsins.
Eldhús og borðstofur fá svo upplyftingu með smá gæru á setustólanna, hægt er að setja gæru á einn stól eða á þá alla, útkoman verður alltaf glæsileg, hlýleg og þægileg.
Það besta við þessa sniðugu litlu sætu breytingu er að það er auðvelt að smella gærunni af sófanum eða stólnum þegar vorar og geyma í geymslunni yfir sumartímann. Þá færðu líka smá breytingu heima fyrir milli árstíða.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.