Ætlarðu að bjóða fólki í mat um páskana?
Er þá ekki tilvalið að fara að hugsa um borðskraut á matarborðið? Smella smá páskastemningu á borðið og koma fólki í verulegt páskaskap. Til eru fjöldamargar hugmyndir um flott borðskraut, sumt af því er erfiðara en annað til framkvæmda en svo er líka hægt að fara minimalísku leiðina og velja eitthvað auðvelt og einfalt.
Sjálf vil ég ekki mikið af dúllum og litum í mitt páskaskraut og vel einfaldar skreytingar á mitt borð. Til dæmis venjulegt egg í eggjabikar við hvern disk. Á egginu er límmiði með upphafsstaf þess sem á að sitja við þann disk. Eða jafnvel allt nafnið ef stafirnir eru litlir. (Stafa límmiðar fást í öllum föndurbúðum) Þetta skraut er mjög einfalt og svo smellir maður bara eggjunum aftur inn í ísskáp þó það sé eflaust öruggara að sjóða þau fyrst.
Svo er mjög fallegt að spreyja egg í glimmerlit og setja þau saman í skál. Fallegt er líka að útbúa smá hreiður en hægt er að búa til hreiður úr trjágreinum, mosa, blöðum eða grafa upp gamla jólahringinn sem þú ætlaðir að skreyta síðustu jól og hefur ekki enn komið þér til að gera… (á sjálf nokkra niðri í geymslu)
Gulir túlípanar eru alltaf svo páskalegir og auðvitað er einfaldast að smella þeim í fallegan vasa og setja á borðið en ef þig langar til að fara skrefinu lengra í skreytingum þá er um að gera að finna gamla regnhlíf og setja túlípanana ofan í regnhlífina, smella slaufu á herlegheitin og láta regnhlífina svo liggja á borðsendanum sem skraut. Þetta getur ekki klikkað og kemur svo ótrúlega vel út. Bara setja vatn í plastpoka og teygju fast utan um svo að blómin lifi nú.
Önnur góð hugmynd er að nota alla litlu og stóru kertastjaka sem þú átt og setja eitt skreytt egg í hvern stjaka. Þú getur bæði haft eggin máluð í litum eða haft þau hvít. Mjög flott að nota jafnvel ólíka kertastjaka saman og setja þá saman á matarborðið. Sumir setja páskaegg númer eitt í hvern stjaka og gefa svo gestunum egg í eftirrétt.
Í myndasafninu eru enn fleiri hugmyndir að flottum borðskreytingum, nú er um að gera að setja sig í páskagírinn og koma fjölskyldunni á óvart með flottri skreytingu. Gleðilega páska!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.